Efnahagsmál oft rædd í stjórninni

Geir H. Haarde að loknum yfirheyrslum í landsdómi í dag. …
Geir H. Haarde að loknum yfirheyrslum í landsdómi í dag. Hann gaf ekki kost á viðtali. mbl.is/Rax

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í Landsdómi í dag að efnahagsmál hefðu oft verið rædd á ríkisstjórnarfundum þó að ekki hafi alltaf verið bókað formlega um það. Auk þess hefðu efnahagsmál og málefni bankanna margoft verið rædd á ráðherrafundum.

Geir er m.a. ákærður fyrir að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að halda ráðherrafund um mikilvæg stjórnarmálefni. Í Landsdómi í dag var því talsvert fjallað um hvað hefði verið rætt á ráðherrafundum og ríkisstjórnarfundum um málefni bankanna og þá hættu sem blasti við fjármálalífinu.

Geir gagnrýndi ályktanir Rannsóknarnefndar Alþingis um þessa hluti. Hann sagði að efnahagsmál hefðu oft verið rædd á ráðherrafundum og á formlegum ríkisstjórnarfundum. Þessi mál hefðu verið rædd undir liðnum önnur mál, en ekki hefði alltaf verið bókað sérstaklega um þetta í fundargerðum ríkisstjórnarinnar.

Geir gerði grein fyrir þeim reglum og hefðum sem unnið væri eftir við gerð fundargerða. Fundargerðirnar væru knappar. Hann taldi fyrirkomulag ríkisstjórnarfunda hafa reynst vel og engin ástæða væri til að breyta þeim.

Geir sagði að mál væru gjarnan undirbúin í ráðherranefndum og í samskiptum formanna flokka. Einnig hefði hann fundað með ráðherrum síns flokks og rætt um efnahagsmál við þingflokkinn.

Saksóknari spurði Geir út í nokkrar fundagerðir þar sem fjallað er um efnahagsmál. Þegar kom fram í október var fjallað sérstaklega um málefni bankanna og spurði saksóknari hvort þetta hefði verið í fyrsta skipti sem málefni bankanna voru formlega rædd í ríkisstjórninni. Geir sagði það rétt, en málefni þeirra hefðu verið rædd á minni fundum og í samskiptum ráðherranna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert