Enginn hefði viljað taka við bönkunum

Saksóknarar í málinu gegn Geir H. Harrde.
Saksóknarar í málinu gegn Geir H. Harrde. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segist telja að það sá staður sé vandfundinn sem hefði verið tilbúinn til að taka við íslensku bönkunum á árinu 2008. Þetta sagði hann í Landsdómi í dag.

Í yfirheyrslum yfir Geir hefur talsvert verið spurt um þann kost að flytja höfuðstöðvar íslensku bankanna, eins eða fleiri, úr landi. Geir sagðist kannast við umræður um þetta, sérstaklega varðandi Kaupþing. Hann sagðist nokkrum sinnum hafa fengið upplýsingar frá Davíð Oddssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, um þetta efni.

Geir sagði að það hefði verið umfangsmikið verkefni að flytja höfuðstöðvar bankanna úr landi og hefði tekið marga mánuði. Íslensk stjórnvöld hefðu viljað að bankarnir greiddu áfram skatta hér á landi.

Geir sagði að ef flytja hefði átt íslenskan banka úr landi hefði það land sem taka hefði átt við bankanum viljað skoða hann ítarlega og fullvissa sig um stöðu hans. „Ég tel að það sé vandfundinn sá staður sem hefði viljað taka við bönkunum. Þetta sér maður eftir á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert