Ungmenni sem horfa á kvikmyndir sem sýna leikara neyta áfengis eru sjálf líklegri til þess að drekka í óhófi. Þetta er niðurstaða nýrrar evrópskrar rannsóknar sem formlega verður kynnt í tímaritinu Pediatrics í næsta mánuði.
Rannsókn þessi náði til ungmenna í sex ríkjum Evrópu sem öll hafa ólík kynni af áfengi. Niðurstaðan þykir eindregið benda til þess að áfengisdrykkja í kvikmyndum auki líkurnar á misneytingu áfengis en rannsakendur segja þörf vera á því að rannsaka viðfangsefnið frekar.
Alls var notast við upplýsingar frá 16.551 ungmenni á aldrinum 10 til 19 ára frá 114 skólum. Þau ríki er rannsóknin náði til eru Ísland, Þýskaland, Ítalía, Holland, Pólland og Skotland. Þessi ríki voru valin sökum ólíkra áfengislöggjafa, -verðs, -auglýsinga, -framboðs og refsiramma tengdra ölvunarakstri.
Samkvæmt eldri könnun sem gerð var árið 2007 neyta 22% ungmenna á Íslandi áfengis en 54% á Bretlandseyjum.
Rannsakendur skráðu hve oft áfengi sést í 250 vinsælustu kvikmyndum hvers ríkis á árunum 2004-2009. Kemur m.a. fram að ungmenni verða minnst vör við neyslu áfengis í vinsælum kvikmyndum sem sýndar eru í Hollandi og Þýskalandi en mest verða þau vör við neyslu áfengis í kvikmyndum á Íslandi og Ítalíu.