Forseti landsdóms: Svört mynd

Frá landsdómi í morgun
Frá landsdómi í morgun mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Markús Sigurbjörnsson, forseti Landsdóms, sagði þegar hann spurði Geir H. Haarde í landsdómi í dag, að innanhússskjöl frá Seðlabankanum frá fyrri hluta árs 2008 drægju upp svarta mynd af stöðu íslenska bankakerfisins en á sama tíma hefðu erlendir lánamarkaðir verið að lokast. Hann spurði Geir hvernig tónninn hefði verið í samræðum manna á þessum tíma.

Eftir að saksóknari og verjandi Geirs höfðu spurt Geir um aðdragandann að hruni bankanna tóku dómarar í landsdómi að spyrja Geir.

Markús vitnaði í innanhússskjöl frá Seðlabanka Íslands. Hann sagði ekki víst að Geir hefði séð öll þessi skjöl, en vitnaði í nokkur sem hann taldi að Geir hefði séð á þessum tíma. Hann vitnaði m.a. í skjal um stöðu Landsbankans frá 23. janúar 2008 þar sem dregin er upp dökk mynd af stöðunni og sagt að gera þurfi „Landsbankann sjókláran ef allt fari á versta veg“. Í öðru skjali sem Markús vitnaði í var fyrirsögnin: „Hryllingsmynd blasir við“. Í enn öðru skjali frá því í janúar er talað um að ef allt fari á versta veg verði ómögulegt fyrir bankana að fjármagna sig erlendis. Þá vísaði Markús í minnisblað sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifaði eftir fund sem hún átti með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra þar sem rætt var um lokun erlendra markaða fyrir íslensku bönkunum.

Markús sagði að þessi skjöl drægju upp nokkuð svarta mynd af stöðunni. Í febrúar 2008 hefði komið fram að íslensku bankarnir þyrftu 16 milljarða evra á næstu tveimur mánuðum til að geta fjármagnað sig. Þessi skjöl Seðlabankans bentu hins vegar til að erlendir lánamarkaðir hefðu verið að lokast fyrir erlendu bönkunum.

Markús spurði Geir í ljósi þessa hvernig umræðurnar hefðu verið á þessum tíma milli hans og seðlabankastjóra, forstjóra FME og annarra sem sinna áttu eftirliti með fjármálalífinu.

Geir sagði að þessi tala, 16 milljarðar á tveimur árum, hefði verið þekkt stærð á þessum tíma. Samt hefðu erlendu bankarnir haldið áfram að lána til Íslands. Bankarnir hefðu talið að þeir myndu ráða við þetta.

Geir vitnaði síðan í skýrslu Seðlabanka Íslands til norrænu bankanna frá 19. september þar sem segir að hagnaður íslensku bankanna sé góður, þeir hafi staðist álagspróf, þeir séu að hagræða og lækka kostnað og minnka efnahagsreikning sinn. Í skýrslunni segir ennfremur að lausafjárstaða bankanna sé í jafnvægi og talið að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar vel fram á næsta ár.

Geir sagðist ekki telja að Seðlabanki Íslands hefði með þessari skýrslu verið að kasta ryki í augun á norrænu bönkunum. Þetta hefði einfaldlega verið mat bankans á stöðunni á þessum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert