Aðalmeðferð í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, er nú hafin í Þjóðmenningarhúsinu. Geir gefur nú skýrslu um aðgerðir sínar í aðdraganda efnahagshrunsins. Búist er við að dagurinn í dag fari í skýrslutöku af Geir en síðar í vikunni munu fleiri koma og bera vitni.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að miklar hræringar hafi verið á fjármálamörkuðum á árinu 2008 og mikið streymi fjármagns hafi verið úr landi þegar slæmar fréttir bárust frá Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Geirs fyrir landsdómi í dag.
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis las upp úr tölvupósti Geirs þar sem sagði að bankarnir yrðu að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Geir sagði að sér hefðu borist þúsund tölvupóstar.
Hann var spurður að því hvaða skilyrði yrðu sett varðandi opinber inngrip. Í hverju áttu þau að felast og hver átti að taka ákvörðun um þau?
Geir: Það kom ekki til þess fyrr en í lok september 2008, menn voru að velta því fyrir sér hvort að slíkt gæti komið upp.
Sigríður vísaði í skjal þar sem minnst er á fjármálaáfall. Þar kemur fram að þar sé bent á vænlegar aðgerðir stjórnvalda í slíkum aðstæðum. Hún las einnig upp lista yfir næstu verkefni, að tryggja nauðsynlegar lagaheimildir, efla gjaldeyrisforða. Spurður að því hvort þetta hefði verið framkvæmt sagðist Geir ekki geta svarað því til. En ef starfsmenn þessara stofnana hefðu verið þeirra skoðunar að þetta ætti að gera, hefðu þeir komið með þessar tillögur til hans.
Sigríður las þá upp úr tölvupósti frá Jónasi Fr. Jónssyni þáverandi forstjóra FME, þar var listi í 7 liðum um mögulegar aðgerðir stjórnvalda. Pósturinn var sendur Tryggva Pálssyni, sem var í þessum hópi fyrir hönd Seðlabankans. Geir var spurður að því hvort hann áttaði sig á því hvaða stjórnvöld væri þarna átt við. Hann svaraði því til að þetta væri listi yfir atriði sem grípa ætti til ef illa færi. Hann sagðist ekki hafa séð þetta plagg fyrr en síðar.
Geir talaði um tryggingarsjóð innistæðueigenda. Kúnstin í öllu þessu var að styrkja stöðu bankakerfisins án þess að verða þess valdandi að kerfið færi á hliðina. Það var aldrei talað um að reyna að lögbinda það að bankarnir ættu að minnka. „Ég man ekki til þess að nokkur einasti maður hafi minnst á það í mín eyru, þetta er eitthvað sem kemur upp í hugarfylgsnum rannsóknarnefndar Alþingis,“ sagði Geir fyrir landsdómi í dag.
Spurður að því hvort hann hefði talið að ríkisstjórnin hefði átt að marka sér skýrari stefnu, sagði Geir að ómaklegt væri að segja að samráðshópurinn hefði ekki skilað sínu verki á þeim forsendum sem hann var stofnaður á sínum tíma.
Saksóknari spurði Geir út í fund þann 16. september 2008 þar sem fjallað var um viðbragðsáætlanir, ef banki færi í greiðsluþrot. Spurði hún Geir að því hvort sérstök stefna stjórnvalda hafi legið fyrir á þessum tíma?
Geir svaraði nei. Hann sagði að þetta hefði verið daginn eftir að Lehman bankinn fór á hausinn og verið væri að skoða út um allan heim hvaða áhrif það hefði á efnahagsástandið í heiminum. „Hvers vegna hefði samráðshópurinn átt að vera búinn að átta sig á því?" spurði Geir.
Geir sagði að á þessum fundi hefði verið ákveðið að ekki þyrfti að funda aftur fyrr en 2. október, málin væru í slíkum farvegi, að ekki væri ástæða til að funda fyrr.
„Það væri kannski ákveðið hlé. En það reyndist síðan svo ekki rétt."
Geir sagði að þann 17. september hefði komið ítarleg frétt í Morgunblaðinu um að allir bankar væru búnir að tryggja sína lausafjárstöðu með þeim hætti að þeir myndu ekki lenda í vandræðum fram eftir árinu 2009.
Hann segist hafa fundað með bankastjórum daginn eftir til að fullvissa sig um að þessar fréttir væru réttar.
„Á þessum fundi (18.9) kom það fram að bankarnir ættu að vísu við erfiðleika að stríða en að þeir væru samt með sína hluti í lagi. Það datt auðvitað engum í hug að bankarnir væru annaðhvort að villa um fyrir manni eða að staða þeirra væri svo slæm að þeir áttuðu sig ekki á því,“ segir Geir.