Fjölmargir erlendir fjölmiðlar fjalla í dag um fyrirhugaða aðalmeðferð í landsdómsmálinu í dag.
Á vef BBC er fjallað um forsögu málsins og Icesave-málið. Þar kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem landsdómur kemur saman á Íslandi og að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segi ákæruna pólitískar ofsóknir og að honum verði veitt uppreisn æru í meðferð málsins.
Í frétt Al Jazeera er farið yfir hverjir sitji í Landsdómi og að sérfræðingar í lögum telji miklar líkur á að Geir verði sýknaður. Meðal annars vegna þess hver sé verjandi hans, Geir njóti samúðar meðal almennings þar sem hann sé einn ákærður í málinu og uppbyggingar Landsdóms þar sem það sé í höndum þingmanna, ekki lögmanna, að leggja fram ákæru.
AP-fréttastofan ræðir við Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics, sem segir að Geir njóti samúðar vegna þess að hann sé einn ákærður. Hins vegar sé betra að einn sé sóttur til saka en enginn því ljós sé að ráðherrar brugðust.
Washington Post vísar til orða Róberts Spano, prófessors í lögum við Háskóla Íslands, sem segir málið sýna að breyta þurfi kerfinu. Hrunið á Íslandi, sem Róbert líkir við náttúruhamfarir, hafi komið á hugarfarsbreytingu sem geti haft áhrif.
Aðalmeðferð í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefst í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 9.00 í dag. Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, sagði í viðtali við Morgunblaðið eftir hádegi í gær að sennilega yrði einungis tekin skýrsla af ákærða í dag. Ekki var ljóst þegar rætt var við Sigríði hvort hún sem saksóknari og Andri Árnason hrl., verjandi Geirs, yrðu með forflutning. Í forflutningi er farið stuttlega yfir atvik málsins.
Vitnalisti hafði ekki verið birtur í gær en verður mögulega birtur í dag. Á listanum eru nöfn rúmlega 50 vitna. Tökur skýrslna þeirra standa alla þessa viku og á mánudag og þriðjudag í næstu viku. Hlé verður gert 14. mars og daginn eftir, 15. mars, verður ef til vill frekari skýrslutaka af ákærða og málflutningur sækjanda. Málflutningur af hálfu verjanda Geirs verður svo föstudaginn 16. mars, að sögn Sigríðar.