Farfuglarnir eru farnir að tínast til landsins og á vefnum fuglar.is segir frá því að heyrst hafi í heiðlóu ofan við hesthúsahverfið við Eyrarbakka í gær, sunnudag. Það þykir ávallt merki um að vorið sé á næsta leiti sem hlýtur að gleðja marga eftir nokkuð erfiðan vetur.
Í gær sáust líka þrír tjaldar á flugi á Fáskrúðsfirði og þrjár álftir við Fossgerði rétt utan við Egilsstaði. Tjaldur sást við Eyrarbakka á föstudaginn og er líklegast nýkominn. Í gær heyrðist svo í heiðlóu ofan við hesthúsahverfið við Eyrarbakka.
Fyrsti tjaldur vorsins sást í Heimaey og líklegt er að fyrstu tjaldarnir séu komnir á Höfn, þó það sé erfitt að meta það þar sem yfir 300 tjaldar voru með vetursetu á svæðinu. Þá eru álftir líka komnar til Fáskrúðsfjarðar, segir á fuglar.is.