Fjöldi skuldugra heimila hefur orðið fyrir verulegri skerðingu vaxtabóta eftir að eignaskerðingarmörkin voru lækkuð í byrjun seinasta árs. Lækkun bótanna frá árinu 2010 getur hlaupið á hundruðum þúsunda hjá meðalfjölskyldu samkvæmt nýjum útreikningum ASÍ.
Greiðsla sérstakra vaxtabóta á síðasta og þessu ári vegur aðeins að litlu leyti upp á móti lækkun bótanna hjá þessum hópi. Að mati ASÍ myndi það hjálpa mörgum skuldsettum heimilum ef ríkisstjórnin færði eignaskerðingarmörkin aftur til fyrra horfs með afturvirkum hætti, að því er fram kemur í fréttaskýringu um vaxtabætur í Morgunblaðinu í dag.
Með samkomulagi ASÍ og ríkisstjórnarinnar sem var við völd á árinu 2008 voru eignaskerðingarmörkin hækkuð um 35%. Í lok árs 2010 var hins vegar sú breyting gerð á vaxtabótakerfinu að vaxtabætur hjóna féllu niður við 10,4 milljóna króna hreina eign í stað 18,2 milljóna áður.