„Söngurinn um að fjórflokkurinn sé dauður er kyrjaður daglangt. Söngurinn um að færa allt vald til fólksins og taka upp alvörulýðræði hér á landi er sunginn,“ segir Vigdís Hauksdóttir alþingismaður í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir að reynt sé að búa til eftirspurn eftir „alvöru“ grasrótarflokkum því flokkakerfið á Íslandi sé gjörspillt og óalandi. Vigdís segist ekki ætla leggja mat á þennan spuna en vill beina kastljósinu á staðreyndir.
Í grein sinni, sem lesa má í heild í blaðinu í dag, segir Vigdís m.a.: „Eftirtektarvert er að skoða stöðuna á sviði stjórnmálanna í dag. Krafan um „nýja flokka“ virðist fyrst og fremst koma innan úr Alþingishúsinu sjálfu. Frá sitjandi þingmönnum sem hafa fundið sig knúna til að yfirgefa þá flokka sem þeir voru kjörnir á þing fyrir. Slagorðið „Ég yfirgaf ekki flokkinn – flokkurinn yfirgaf mig“ er notað af flokkaflökkurum. Svo er rokið til og stofnaður nýr flokkur.“