Árásin kemur Þór ekki á óvart

Þór Saari,
Þór Saari, MBL/Ómar Óskarsson

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að ekki sé undarlegt né óskiljanlegt að árás, líkt og sú sem gerð var á lögmannsstofu í gær, hafi verið framin.

„Það hefur vakið athygli mína í fjölmiðlaumfjöllun um það voðaverk sem framið var á lögfræðistofu hér í bæ í gær þar sem starfsmaður var slasaður lífshættulega í morðtilraun, að flestir sem hafa tjáð sig segjast ekki skilja hvernig svona getur gerst. Nú er það svo að framning á slíku voðaverki er okkur flestum sem betur fer óskiljanleg, þ.e. verknaðurinn sjálfur og það sem þarf til þess að fremja hann. 

Hitt er svo annað mál að það að slíkt skuli gerast í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt. 

Hér á landi hefur smátt og smátt verið að byggjast upp ákveðið ástand, ástand örvæntingar, vonleysis og reiði sem hjá þúsundum manna er komið á hættulegt stig, ástand sem mun ef svo fer sem horfir sennilega hafa áframhaldandi ofbeldi í för með sér. Íslenskt samfélag samtímans hefur á sér yfirbragð samfélags þar sem meginstoðirnar eru grautfúnar, réttarríkið vafa undirorpið og stjórnvöld afskiptalaus og jafnvel vitlaus. 

Samfélag þar sem ósanngirni, óréttlæti og jafnvel hrein glæpamennska viðgengst þar sem yfirvöld hafa gefist upp fyrir ástandi sem þau ráða ekki við vegna skilningsleysis, kjarkleysis og þvergirðingsháttar æðstu ráðamanna. Slíkt samfélag mun fyrr eða síðar verða dómstól götunnar að bráð hvort sem mönnum líkar vetur eða verr,“ skrifar þingmaðurinn á bloggi sínu á Eyjunni.

Hann segir það fjárhagslega hrun sem varð hér hafa valdið þúsundum fjölskyldna miklum fjárhagslegum skaða, það hafi leitt til þess að þúsundir fjölskyldna misstu allt sitt, þúsundir fjölskyldna hafi þurft að yfirgefa landið og þúsundir fjölskyldna viti ekkert hvernig þeim mun reiða af fjárhagslega næstu árin og jafnvel áratugina. 

„Ótal fjölskyldur hafa splundrast og ótal manns hafa í örvæntingu tekið eigið líf og nú virðist sem nýjum „áfanga“ í ömurðinni hafi verið náð með morðtilraun á lögmanni í innheimtugeiranum. Í þessu samhengi er tilgangslaust að benda á þá sem ekki skulda, þá sem hafa flutt til landsins og þá sem hafa samt haldið sjó. 

Slíkur samanburður breytir engu fyrir hina sem fyrr voru upptaldir og þó að ríkisstjórnin haldi á lofti statistík með tölum um minnkandi halla á ríkissjóði, aðflutta í stað brottfluttra og fjölgun fæðinga þá breytir það heldur engu fyrir hina sem fyrr voru upp taldir,“ skrifar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert