„Ég veit til þess að [Geir Haarde] eins og aðrir ráðherrar ræddi þessi mál og niðurstaðan var sú að það var ekki hægt að gera neitt,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra, aðspurður fyrir Landsdómi hvort stjórnvöld hafi rætt að reyna að selja eignir bankana fyrir hrun.
Sigríður Friðjónsdóttir spurði Björgvin hvort þetta hefði þá verið niðurstaðan, að það væri ekkert hægt að gera. „Þetta var svo viðkvæmt ástand,“ svaraði Björgvin. Ýmislegt hefði verið reynt að gera en það hefði þótt alveg ljóst að hvers kyns aðgerðir stjórnvalda til að þvinga bankana til að selja eignir á undirverði hefðu tafarlaust leitt til falls þeirra. „Það er alveg skrifað í skýin að það var ekkert hægt að gera á þessum tíma 2008 til að bjarga bankakerfinu.“
Vonuðu það besta
Aðspurður hvort það hefði verið rætt í ríkisstjórn að bönkunum væru allar bjargir bannaðar svaraði Björgvin: „Menn vonuðu allan tímann að ástandið myndi batna og það væri hægt að gera ákveðna hluti. það var verið að gera fullt af hlutum á þessum tíma og sumt tókst, en tíminn rann okkur úr greipum þegar fjármálakreppan breyttist í fellibyl.“
Hann benti á að það hefði verið vilji bankanna sjálfra að selja eignir og minnka efnahagsreikning sinn en aðstæður hamlað það. Glitnir hefði reynt að selja eignir í Noregi en það ekki gengið vel. „Það var enginn banki í heiminum að selja [eignir] á þessum tíma með árangursríkum hætti, það var ekki raunhæft. Þannig að það var einfaldlega það sem kom í veg fyrir að þeir sjálfir seldu eða stjórnvöld, með einhverjum þvingunaraðgerðum sem hefðu að allra mati kollfellt þá.“
Þrýstu margsinnis á bankana
Sigríður benti á að eignir bankanna hefðu ekki verið slæmar þegar bankarnir reyndu árangurslaust að selja þær í september 2008. Hún spurði Björgvin hvort ekki hefði verið hægt að selja þær hefðu stjórnvöld þrýst á um það fyrr. Björgvin sagði að stjórnvöld hefðu margsinnis þrýst á bankana, með samtölum við bankamenn.
Sigríður spurði Björgvin einnig um stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands frá miðju ári 2007, þar sem kemur m.a. fram að tryggja eigi að fjármálastarfsemi geti áfram vaxið hér á landi og útrásarfyrirtæki sjái áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar á íslandi. Sigríður spurði hvort í þessu hefði falist að stjórnvöld hefðu viljað styðja við enn frekari vöxt bankanna.
„Nei, það sem stóð til hjá okkur var að koma þannig inn í fjármálaþjónustuna að efla verulega fjármálaeftirlit,“ svaraði Björgvin.