„Einfaldlega vond afsökun“

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. mbl.is

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn, gefur ekkert fyrir útskýringar Haraldar Flosa Tryggvasonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur, þegar hann segir sölu eignarhluta Orkuveitunnar í Enex í Kína og Envent Holding, sem fram fór án auglýsingar, eiga sér eðlilegar skýringar.

„Það er nákvæmlega ekkert í samkomulaginu, sem formaður stjórnar Orkuveitunnar vísar til sem gefur fyrirtækinu heimild eða kemur í veg fyrir að það auglýsi umræddar eignir með opinberum hætti,“ segir Hanna Birna en salan átti sér stað einu og hálfu ári eftir að umrætt samkomulag var undirritað. 

Málefni Orkuveitunnar voru til umræðu á borgarstjórnarfundi í dag og þar sagði Hanna Birna m.a. að málið bæri þess merki að hvorki Orkuveitan né meirihlutinn í Reykjavík hefði skilning á mikilvægi þess að Orkuveitan starfaði í samræmi við góða stjórnsýslu og skyldur sínar sem fyrirtæki í almannaeigu.

„Hafi stjórnendur fyrirtækisins séð það sem hagsmuni fyrirtækisins að auglýsa ekki, líkt og Haraldur Flosi heldur fram, en á að vera regla með opinber fyrirtæki hefðu stjórnendur átt að sækja sér heimild til þess að taka slíka ákvörðun,“ segir Hanna Birna en slíkt var þó ekki gert þrátt fyrir að á sama tíma, í september 2010, voru sérstakar verklagsreglur samþykktar af stjórn Orkuveitunnar um að allar eignir fyrirtækisins sem færu í söluferli bæri að auglýsa opinberlega.

Málinu hvergi lokið

„Orkuveita Reykjavíkur hefur enga heimild til þess að selja eignir án auglýsingar og þetta er einfaldlega vond afsökun fyrir vondum vinnubrögðum. Þetta hefur verið rætt ítarlega á vettvangi borgarstjórnar í dag og við munum óska eftir úttekt á þessu máli.“

Á næsta fundi borgarráðs mun minnihlutinn í borgarstjórn óska eftir úttekt og athugun af hálfu innri endurskoðanda. „Við erum þeirrar skoðunar að þarna sé fyrirtækið að fara verulega út fyrir heimildir sínar og ekki að taka mið af þeim skilaboðum sem komu skýrt fram í skýrslu stýrihóps um REI og Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert