„Ég verð nú að viðurkenna að hafa ekki áttað mig á því þá að hún væri fyrirsjáanleg ... Ég var nýkominn í sumarbústað,“ sagði Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og ritstjóri Morgunblaðsins, um laugardag einn árið 2006 er hann fékk þær fréttir frá Halldóri Ásgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, að svokölluð míníkrísa væri hafin og að bankarnir færu hugsanlega í þrot á mánudeginum.
Halldór hefði kallað hann til fundar í Reykjavík þar sem Ingimundur Friðriksson fyrrverandi seðlabankastjóri og Sturla Pálsson, sem einnig vann í bankanum, hefðu rætt við Halldór Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, og Bjarna Ármannsson, bankastjóra Glitnis, um stöðuna. Hreiðar Már Sigurðsson, bankastjóri Kaupþings, hefði verið í flugvél og því hefði verið rætt við hann í gegnum síma.
„Það verður að segja bönkunum til hróss að þeir lærðu af þessu,“ sagði Davíð og nefndi hvernig bankarnir hefðu lengt í lánum og minnkað vægi áhættusamrar skammtímafjármögnunar. Það hefði skipt miklu máli að alþjóðleg fjármálakreppa var ekki hafin þegar áðurnefnd míníkrísa hófst.