Lögreglan hefur sérstakar gætur á ellefu gengjum sem talið er að tengist skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Innanríkisráðherra segir það vilja ráðuneytisins að sérstakt átaksverkefni gegn glæpastarfsemi verði framlengt. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Skipulögð glæpastarfsemi hér á landi er helst talin tengjast gengjum sem oft og tíðum kenna sig við ákveðna mótorhjólaklúbba. Í fjölmiðlum er títtrætt um mótorhjólaklúbba, svo sem Black Pistons, MC Iceland, Outlaws og Hells Angels - en þeir eru fleiri.
Lögreglan hefur sérstakar gætur á ellefu klúbbum hér á landi um þessar mundir samkvæmt frétt RÚV. Auk hinna áðurnefndu má nefna félagsskap svokallaðra SOD-félaga í Reykjavík, Suðurnesjum og á Norðurlandi. Lögreglan telur 89 meðlimi samtakana tengda glæpsamlegri starfsemi af einhverju tagi.
Í frétt RÚV kom fram að á fundi lögreglu, ráðherra og allsherjarnefndar nýlega hefði m.a. verið rætt hvort banna ætti búninga gengjanna sem gagngert væru notaðir til að ógna og hóta. Þá var jafnvel rætt um að banna starfsemi félaganna með öllu.