Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Landsbankann af kröfu Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra, um að samningur um viðbótarlífeyrissparnað hans sé í gildi en samningurinn var frá því í ágúst 2008.
Jafnframt var fellt úr gildi lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 15. desember 2010 við því að Landsbankinn selji eða ráðstafi með nokkrum hætti fjármálagerningum sem keyptir hafa verið fyrir viðbótarlífeyrissparnað Sigurjóns og eru í vörslum Landsbankans.
Málavextir voru þeir að Landsbankinn setti hinn 1. ágúst 2001 reglur um lífeyrissparnað samanber lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
Fram kemur m.a. í reglunum að rétthafi skuli gera samning um lífeyrissparnað við bankann og sé iðgjald rétthafa séreign hans. Bankinn ávaxti iðgjald rétthafa í samræmi við ákvæði samnings aðila um lífeyrissparnað eða viðauka við samninginn. Rétthafi geti hafið úttekt á lífeyrissparnaði sínum ásamt vöxtum samkvæmt samningi sínum eða gert sérstakan útborgunarsamning við bankann, tveimur árum eftir að fyrsta greiðsla iðgjalds hafi borist. Útborgun geti þó ekki hafist fyrr en rétthafi hafi náð 60 ára aldri. Rétthafa sé heimilt að ráðstafa innstæðu sinni og flytja réttindi sín til annars viðurkennds vörsluaðila. Samningi um lífeyrissparnað megi segja upp með sex mánaða fyrirvara. Uppsögnin skuli vera skrifleg og send afgreiðslustað bankans. Uppsögn veiti ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda en rétthafi hafi heimild til að ráðstafa innstæðu sinni. Rétthafa sé óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa inneign og tekjum af inneign.
Sigurjón var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. hinn 21. apríl 2003. Fram kemur í ráðningarsamningi hans við bankann að bankinn greiði sem nemi 20% af launum stefnanda í lífeyrisiðgjöld á móti 4% framlagi stefnanda, eða samtals 24% af launum. Skyldi iðgjaldið greitt í séreignalífeyrissjóð samkvæmt lögum og samkvæmt nánari ákvörðun Landsbankans.
Í apríl 2008 hóf Landsbanki Íslands hf. að bjóða upp á nýja sparnaðarleið undir nafninu Einkalífeyrissparnaður Landsbankans. Hinn 19. ágúst s.á. gerði Sigurjón samning við bankann um viðbótarlífeyrissparnað þar sem bankinn gerðist vörsluaðili lífeyrissparnaðar stefnanda á grundvelli þessarar sparnaðarleiðar.
Þegar Landsbankinn féll voru fimm aðrir einstaklingar verið í sambærilegri lífeyrisþjónustu og Sigurjón hjá bankanum. Samið hafi verið við alla þessa einstaklinga um að ráðstafa lífeyrisréttindum þeirra í annað sparnaðarform fyrir utan Sigurjón, en viðskiptavinum Landsbankans standi þessi sparnaðarleið ekki lengur til boða.
Fjármálaráðuneytið gerði í desember 2009 athugasemdir við umrædda sparnaðarleið og óskaði skýringa á því á hvaða lagagrundvelli Landsbankinn byði upp á viðkomandi þjónustu.
Einnig óskaði ráðuneytið skýringa á því hvernig kaup á tveimur skuldabréfum, útgefnum af Landsbankanum, samtals að verðmæti 70 milljónir króna, stæðust lög.
Bankastjóri og núverandi framkvæmdastjórn Landsbankans féllust á að þessi gerningur orkaði mjög tvímælis. Þeim starfsmanni sem ábyrgð hafi borið á framkvæmd hafi verið vikið frá störfum tímabundið og síðan veitt formleg áminning.
Með bréfi, dagsettu 7. júlí 2010, hóf Fjármálaeftirlitið afskipti af málinu. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 19. október 2010, kom fram sú afstaða að umrædd sparnaðarleið væri í andstöðu við lög og reglugerðir og væri þess krafist að þeim einkalífeyrissparnaðarreikningum sem eftir stæðu yrði lokað við fyrstu hentugleika, en þó ekki síðar en 15. nóvember 2010. Var Sigurjóni tilkynnt um þessa ákvörðun FME en hann mótmælti því og krafðist í kjölfarið lögbanns við því að bankinn seldi eða ráðstafaði með nokkrum öðrum hætti fjármálagerningum sem keyptir hefðu verið fyrir viðbótarlífeyrissparnað hans og féllst sýslumaðurinn í Reykjavík á kröfu Sigurjóns. Lögbannið hefur nú verið fellt úr gildi, líkt og fram kom hér að framan og bankanum heimilt að ráðstafa þeim fjármunum sem eru inni á viðbótarlífeyrisreikningum Sigurjóns hjá bankanum.