Níu sveitarfélög koma að máli Huangs

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Norðurþingi sem fór nýverið til …
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Norðurþingi sem fór nýverið til Kína að hitta kínverska fjárfestinn Huang Nubo vegna málefna Grímsstaða á Fjöllum. mbl.is

Þingeyingar skoða í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga aðkomu kínverska fjárfestisins Huangs Nubos að ferðaþjónustu á Íslandi. Samkvæmt frétt Financial Times taka níu sveitarfélög þátt í málinu.

„Ég fór þangað að hitta hann,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, aðspurður um ferð sína til Kína nú fyrir hálfum mánuði þar sem hann hitti kínverska fjárfestinn Huang Nubo til að ræða nýjar leiðir til að hann geti komið upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum í kjölfar þess að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafnaði ósk hans um að kaupa landið.

„Ástæðan fyrir er einfaldlega sú, eins og flestir vita, að við höfum náttúrlega lagt mikla áherslu á ferðaþjónustuna hér á Norðausturlandi og þetta hefur verið, ásamt orkufrekum iðnaði, ein af tilraunum okkar til að efla atvinnulífið í ljósi þessarar hagræðingar sem hefur orðið í landbúnaði og sjávarútvegi,“ segir Bergur.

„Ég fór þarna út til að koma málinu aftur á borðið eftir að Ögmundur hafnaði því að hann gæti keypt þetta sjálfur,“ sagði Bergur og segist hafa farið til að ræða mögulega sviðsmynd á því hvort þetta gæti orðið að veruleika.

Skoðaði ferðaþjónustu sem Huang rekur í nágrenni Peking

„Þetta var nú bara hin áhugaverðasta ferð, sérstaklega að því leyti að þessi tegund ferðaþjónustu sem hann hefur sinnt og skapað sér stórt nafn snýr að náttúruupplifun, menningu og því sem er einstakt og ég fór að skoða þarna verkefni sem hann hefur unnið að,“ segir Bergur um ferðina. Þar fór hann að skoða hótel í fjallgarði í námunda við Peking. „Síðan er hann með svona ferðir upp í fjöllin til staða sem hafa staðist tímans tönn,“ segir Bergur og segir náttúruferðir, göngur og allt því tengt hluta af þeirri starfsemi.

„Þannig að þá fór maður að skilja í sjálfu sér af hverju hann hefur áhuga á Grímsstöðum á Fjöllum,“ segir Bergur.

„Við erum náttúrlega með þjóðgarðinn, við erum með Sléttuna, við erum með Húsavík, Eyjafjörð og síðast en ekki síst Mývatn og allt er þetta tiltölulega nálægt. Þetta er svona hálfgerð jaðarferðaþjónusta sem ég held að myndi henta okkur afskaplega vel og raunverulega í takt við bæði það umhverfi sem við búum í og þá stefnu sem við höfum tekið.“

Skoða kaup á landinu og leigu til Huangs

„Það sem vakti fyrir okkur var það að reyna að finna einhverja lausn sem allir gætu verð sáttir við, bæði stjórnvöld og sveitarfélögin hér í kring, þannig að þetta geti orðið að veruleika,“ segir Bergur.

Hann segir þau hafa unnið út frá nokkrum hugmyndum og að það sé ekkert launungamál að ein sviðsmyndin sé einfaldlega sú að Norðurþing eða þá hugsanlega fleiri sveitarfélög kaupi landið og setji þá í leiðinni ákveðin skilyrði um notkun þess og verðveislu. Svæðið yrði þá almannaeign, en skilgreint yrði svæði undir fyrirhugaða fjárfestingu Huangs, ef af henni yrði.

„Og við munum þá af sjálfsögðu tryggja það að hún verði ekki eyðilögð þessi ímynd og hugmynd hans um þessa upplifun,“ segir Bergur.

Samvinna Eyfirðinga, Þingeyinga og Vopnfirðinga

„Við höfum gert þetta núna í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Þetta náttúrlega snýst um atvinnumál og þeirra hlutverk er þá að greina betur og stilla upp endanlega hvernig þetta gæti litið út og við munum þá bera það á borð bæði fyrir stjórnvöld og af sjálfsögðu fyrir Huang,“ segir Bergur.

„Þetta er það sem við erum að vinna við í augnablikinu. Þetta snýst um erlenda fjárfestingu, þetta snýst um atvinnusköpun og það að efla þennan geira hér á okkar svæði.“

Fjallað er um málið í Financial Times í dag þar sem mál Huangs Nubos er rakið og lyktir þess á síðasta ári. Þar kemur fram að níu sveitarfélög komi að málinu, en aðspurður segir Bergur að um sé að ræða sveitarfélög í austanverðum Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Vopnafjarðarhrepp, en hluti af Grímsstöðum á Fjöllum tilheyrir því sveitarfélagi.

Sameiginlegur hagur að uppbyggingin eigi sér stað

„Menn telja að þetta hafi ekki bara áhrif á Norðurþing, þetta hafi áhrif á þessi litlu hagkerfi sveitarfélaganna hér í kring og það skiptir okkur miklu máli ef hægt er að ná samstöðu og sátt um þessa fjárfestingu og þess vegna viljum við fara þessa leið,“ segir Bergur Elías.

„Það sem er náttúrlega afskaplega mikilvægt fyrir mig og okkur er að við reynum að koma fram með mótaðar tillögur þannig að um þær verði hægt að fjalla á málefnalegan og lausnamiðaðan hátt. Þannig að ég er ekki tilbúinn að fara nánar út í það að svo stöddu,“ segir Bergur Elías aðspurður um næstu skref í málinu og niðurstöður fundar hans með Huang í Kína.

Bergur segir að menn verði að gera sér grein fyrir því að mikill áhugi sé á Skandinavíu í Kína og áhuginn hér á landi sé hluti af stærra verkefni hjá Huang. „Því ber að halda til haga að þegar ég var þarna úti mættu fimm fulltrúar ásamt sendiherra og hans liði frá Svíþjóð, frá Fjárfestingasjóði Svíþjóðar, þar sem menn voru að kynna Svíþjóð sem góðan kost til þess að byrja og það er náttúrlega bara í ljósi þessarar gríðarlegu athygli sem þetta mál hefur fengið víðsvegar um heiminn.“

Hann segir aðalmarkmiðið að leita lausna „og reyna að nálgast þetta af fagmennsku og ég hef náttúrlega þá trú að sé það gert og menn haldi áttum í umræðunni geti þetta orðið að veruleika“, sagði Bergur að lokum.

Huang Nubo hefur mikinn áhuga á að byggja upp ferðaþjónustu …
Huang Nubo hefur mikinn áhuga á að byggja upp ferðaþjónustu í Skandinavíu. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum. mbl.is/Birkir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert