Borið hefur á því að undanförnu að erfitt hafi verið að fá byggingariðnaðarmenn til þess að sinna ýmsum verkefnum. Skortur á byggingariðnaðarmönnum virðist vera farinn að segja til sín og má þennan skort helst rekja til lágra launa, samdráttar og mikils fólksflótta.
Samkvæmt upplýsingum á vef Vinnumálastofnunar var um 14% atvinnuleysi í janúar á meðal þeirra sem hafa iðnmenntun. Einnig kemur fram á vef Hagstofunar að árið 2008 hafi um 18.000 manns verið við störf við mannvirkjagerð en árið 2011 eingöngu um 10.000 manns. Á síðastliðnum þremur árum hafa 8.373 einstaklingar flutt til útlanda umfram aðflutta samkvæmt vef Hagstofunar. Alls hafa 5.480 Íslendingar flutt af landi brott á þessum tíma og þar af 3.022 til Noregs. Allir þessir þættir hafa leitt til fækkunar í iðnaðarmannastéttinni.
Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, segir tvær megin ástæður þess að undanfarið hafi ekki verið auðvelt að fá iðnaðarmenn í verkefni. „Annars vegar hefur mikill fjöldi iðnaðarmanna hreinlega flutt utan vegna lítillar vinnu hér á landi og þá sérstaklega til Noregs. Hins vegar hefur verið samdráttur í greininni alveg frá árinu 2007“.