Tannlæknanemarnir Björg Helgadóttir og Telma Borgþórsdóttir ætla að loknum prófum í vor að halda til þorpsins Bashay í Tansaníu til að sinna hjálparstarfi. Þar munu þær starfa á spítala ásamt því að vera með forvarnarstarf í leik- og grunnskóla á svæðinu.
Í forvarnarstarfinu verður lögð áhersla á munnhirðu, mataræði og skaðsemi sykraðra gosdrykkja. Í skýrslu sem var gerð árið 2009 kom í ljós að aðeins fjórðungur Tansana, sem höfðu fengið tannverk síðustu 12 mánuðina, leitaði sér aðstoðar hjá viðurkenndum heilbrigðisstarfsmanni. Svæðið er dreifbýlt og vegna fjárskorts er aðstaða til tannlækninga afar frumstæð. „Þjónustan sem fólk fær er í rauninni bara tannúrdráttur,“ segir Björg og bætir við að afar lítið sé um tannlæknamenntað fólk á svæðinu. „Stundum er einn tannlæknir á spítalanum og munum við vinna með honum, auk þess að sinna forvarnastarfinu.“
Dvölin mun því samanstanda af fræðslu og tannviðgerðum en Björg og Telma eru á fimmta ári í tannlæknadeild Háskóla Íslands. „Við munum reyna að meta þörfina, hvernig við getum hjálpað í framtíðinni því bæði tannlæknar og tannlæknanemar hafa sýnt þessu mikinn áhuga og myndu jafnvel vilja koma þarna í framtíðinni. Planið er að byggja þarna upp stofu sem tannlæknar á Íslandi gætu farið á og sinnt tannlækningum. Það væri draumurinn og þetta er í raun fyrsta skrefið í átt að því að láta hann rætast,“ segir Björg.
Aðspurð segir hún hugmyndina hafa kviknað þegar Sigurður Rúnar Sæmundsson, dósent og deildarstjóri barnatannlækninga við tannlæknadeild HÍ, sagði nemendum sínum frá ferð sem hann fór í til Tansaníu fyrir jól. „Dóttir hans var þar í hjálparstarfi og hann var að ferðast og heimsækja hana. Svo komst hann í samband við Önnu Elísabetu Ólafsdóttur, fyrrverandi forstjóra Lýðheilsustöðvar, sem er með annan fótinn þarna í Bashay og hann spurði hana um tannheilsu íbúa Tansaníu. Sigurður er að kenna okkur í tannlæknadeild og þegar hann kom heim sagði hann okkur frá þessari ferð. Mig og Telmu hefur alltaf langað að fara í tannlæknatengt hjálparstarf og út frá þessu þróuðum við þessa hugmynd,“ segir Björg.
Björgu og Telmu langar að færa börnunum í Bashay helstu nauðsynjar þegar kemur að góðri tannhirðu, svo sem tannbursta og tannkrem, auk þess að færa tannlækni spítalans handverkfæri og aðrar nauðsynjavörur tengdar tannlækningum. Til að lesa nánar um verkefnið og styrkja Björgu og Telmu til kaupa á fyrrgreindum vörum, er hægt að skoða Facebook-síðuna Tannsar til Tanzaníu, sem þær hafa stofnað í tengslum við ferðina.