Tiltekin ummæli ómerkt

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason. Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Björn Bjarnason til að greiða Jóni Ásgeiri Jôhannessyni 200 þúsund kr. í miskabætur, 200 þúsund kr. til að birta forsendur dóms auk þess sem tiltekin ummæli í bók Björns voru ómerkt. Þá þarf Björn að greiða Jóni fimm hundruð þúsund í málskostnað.

Málið snýst einkum um þau ummæli Björns í bók sinni „Rosabaugur yfir Íslandi“ sem gefin var út síðastliðið sumar, þar sem fjallað er um Baugsmálið svonefnt, að Jón Ásgeir hafi fengið dóm fyrir fjárdrátt í tengslum við það mál þegar hið rétta var að hann var sakfelldur fyrir meiriháttar bókhaldsbrot. Í kjölfarið skrifaði lögmaður Jóns Ásgeirs Birni bréf og fór fram á það að ummælin yrðu leiðrétt, Jón Ásgeir beðinn afsökunar, það auglýst og óseld eintök af bókinni að auki tekin úr sölu.

Krafa Jóns væri að ummæli Björns yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrði gerð refsing vegna brota gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um ærumeiðingar. Þá yrði Birni gert að greiða Jóni Ásgeiri miskabætur upp á eina milljón króna vegna málsins og að birta dóminn opinberlega og greiða kostnað vegna þess. Jón Magnússon gerði á móti kröfu um að umbjóðandi hans yrði sýknaður vegna málsins.

Við uppkvaðningu dómsins kom fram að Birni yrði ekki gerð refsing en hann dæmdur til að greiða 200 þúsund krónur í miskabætur og 200 þúsund krónur til að standa straum af birtingu dómsins. Einnig að greiða málskostnað upp á hálfa milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert