„Raunveruleikinn var sá að íslensk stjórnvöld tóku þetta mál gífurlega alvarlega. Við litum á þetta sem ógnun við stöðugleika á viðkvæmum tímum,“ sagði Björgvin G. Sigurðsson spurður fyrir Landsdómi um afstöðu stjórnvalda til Icesave-málsins í aðdraganda hrunsins.
Björgvin sagði að unnið hefði verið að því að „koma þessum reikningum í burtu en okkur gafst ekki tími til þess [...] Við vissum ekki þá að 15. september myndi allt fara á hliðina,“ sagði Björgvin og vísaði í fall Lehman Brothers. Hann sagði að ríkisstjórnin og eftirlitsstofnanir hefðu tekið málið mjög alvarlega.
Hann sagði málið hafa verið í „virku ferli“ á árinu 2008 sem hefði falist í því að ná niðurstöðu með samningum um flutninga á eigin fé bankans í áföngum á móti því að reikningarnir yrðu teknir úr útibúi yfir í dótturfélög. Björgvin sagðist enga ástæðu haft til að ætla annað en að Landsbankinn hefði lagt sig fram um að ná þessu í gegn.
Allir voru meðvitaðir og upplýstir
„Ég veit að forsætisráðherra þáverandi fylgdist með því eins og efni stóðu til og gerði það sem hann þurfti að gera.“ Björgvin sagði að þeir kostir sem uppi voru hefðu verið ræddir og hann hefði skynjað það á Geir að það að stjórnvöld settu fé í Icesave kæmi aldrei til greina, það væri að brenna skattpeninga. Allir hefðu verið meðvitaðir, upplýstir og virkir í þessari atburðarás eins og efni stóðu til.
Spurður um afstöðu stjórnvalda til hugsanlegra inngripa í Icesave-málið og hvort hann hefði rætt málið við ákærða, Geir H. Haarde, sagði Björgvin þá hafa rætt málin og að stjórnvöld lagt ískalt og raunhæft mat á stöðuna.
Niðurstaðan hefði verið sú að eina leiðin væri að bresk stjórnvöld heimiluðu flutning í dótturfélög. Það hefði aldrei komið til greina að íslensk stjórnvöld færu að greiða hundruð milljóna króna vegna reikninga erlendis.