Tólf þingmenn hafa lagt fram á Alþingi tillögu til að tryggja að Vegagerðin annist og greiði fyrir nauðsynlegan snjómokstur að lágmarki tvo daga í viku í Árneshreppi.
Frá 2009 hafa íbúar í Árneshreppi á Ströndum búið við skert öryggi yfir vetrartímann. Snjómokstur á þessu svæði felst nú í því að það er mokað tvo daga haust og vor en einungis ef það er snjólétt, en vegagerðinni er heimilt að moka aðeins einu sinni í viku fram til 5.janúar.
Frá 5. janúar til 20. mars er Strandvegurinn því einungis mokaður einu sinni í viku og ekki nema brýna þörf beri til eða mjög snjólétt sé, þar sem sveitarfélagið hefur ekki fjármagn í meiri mokstur. Vert er að geta þess að sveitarfélagið Árneshreppur er eina sveitarfélagið á landinu sem þarf að lúta að þessari reglu Vegagerðarinnar, að því er segir í tilkynningu frá Framsóknarflokknum en aðalflutningsmaður tillögunnar er Ásmundur Einar Daðason, Framsóknarflokki.
„Árneshreppur er nyrsta sveitarfélagið í Strandsýslu og einnig hið fámennasta á landinu. Þangað liggur aðeins ein landleið og gegnir hún mikilvægu hlutverki fyrir íbúa svæðisins. Þeir þurfa sökum smæðar sveitarfélagsins að sækja ýmsa þjónustu til Drangsness, Hólmavíkur og höfuðborgarsvæðisins allan ársins hring.
Einnig er töluverð ásókn í að stunda grásleppu- og handfæraveiðar frá Norðurfirði, en þaðan er stutt á gjöful fiskimið. Það er því afar brýnt að hægt sé að treysta á Strandveginn yfir vetrartímann svo að hægt sé að leita aðfanga og stunda viðskipti á svæðinu, svo ekki sé minnst á öryggi íbúa á svæðinu t.d. varðandi heilbrigðisþjónustu,“ segir í tilkynningu.