Á miðju ári 2008 útveguðu bresk stjórnvöld sér lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og sendu í framhaldinu spurningar til íslenskra stjórnvalda um hvernig bæri að túlka einstakar lagagreinar.
Þetta kom fram í yfirheyrslum í landsdómi yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, þegar hann var spurður um vinnu við flutning Icesave-reikninga Landsbankans yfir í dótturfélög.
Baldur sagði að í júlí 2008 hefði birst í bresku blaði frétt um innistæðureikninga Landsbankans í Bretlandi. Blaðamaðurinn benti á að bankinn væri búinn að safna í Bretlandi 154 sinnum hærri upphæð en var til í Tryggingasjóði innistæðueigenda.
Baldur sagði að þessi grein hefði ýtt við yfirvöldum í Bretlandi. Umræða hefði orðið um málið í breska þinginu. Í framhaldinu hefðu bresk stjórnvöld útvegað sér lög um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. Í kjölfarið hefðu þau sent spurningar til Íslands um einstök ákvæði laganna. Í lögunum segir að sjóðnum sé heimilt að taka lán. Baldur sagði að Bretarnir hefðu spurt hvort sjóðurinn gæti tekið lán. Eins hefði verið spurt hvað gerðist ef sjóðurinn gæti ekki fengið lán, myndi þá ríkissjóður hjálpa honum að fá lán.
Baldur sagði að í svörum til Bretanna hefðu íslensk stjórnvöld ekki ætlað sér lýsa því yfir að ríkið bæri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðsins enda hefði engin ríkisábyrgð verið á sjóðnum. Ekki hefði verið talið hyggilegt að segja að ríkissjóður myndu alls ekki skipta sér af því ef einn banki gæti ekki aflað sér lánsfjár. Því hefði svarið verið á þá leið að ekki hefði verið tekið af skarið um skyldur ríkisins.