Frestað í Al-Thani-málinu

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. Árni Sæberg

Sakborningar í Al-Thani-málinu mættu ekki við þingfestingu þess við Héraðsdóm Reykjavíkur í dag. Verjendur Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar, Magnúsar Guðmundssonar og Ólafs Ólafssonar sögðu allan gang á því hvenær þeir koma til landsins. Málinu var frestað til 29. mars og er búist við að ákærðu mæti þá.

Tekist var á um það hvort verjendur fái afrit af mynd- og hljóðdiskum sem hafa að geyma skýrslutökur yfir sakborningum. Verjendur krefjast þess en ákæruvaldið vill ekki láta diskana af hendi, af ótta við að þeir leki út frá verjendum. Málið verður tekið til úrskurðar, en ákæruvaldið og verjendur flytja mál sitt 29. mars. 

Allir eru mennirnir ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun eða hlutdeild í umboðssvikum og markaðsmisnotkun.

Hreiðar Már er meðal annars ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína sem forstjóri bankans, þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita eignalausu félagi, í eigu Al Thani sjeiks í Katar, á Tortola 50 milljóna Bandaríkjadala lán án þess að lánið væri tryggt og án samþykkis lánanefndar bankans.

Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað stöðu sína þegar þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita Gerland Assets, eignalausu félagi á Tortola, í eigu Ólafs Ólafssonar, sem átti 9,88% hlut í bankanum í gegnum félög sín, tæplega 12,9 milljarða króna lán í formi óundirritaðs peningamarkaðsláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar bankans (sem Sigurður stýrði) og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu.

Þeir Hreiðar Már og Sigurður eru einnig ákærðir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá Katar, sjeik Al Thani, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlut í Kaupþingi þegar Q Iceland Holding keypti umræddan hlut í bankanum og leyna fullri fjármögnun bankans á hlutafjárkaupum og aðkomu meðákærða Ólafs að þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert