„Þeim sem héldu að við hefðum séð eins mikið fjármálalegt brjálæði og mögulegt er frá þessu litla eyríki ætti að koma þetta mjög á óvart. Brjálæðið er bara að byrja. Ísland er víst að velta því fyrir sér að taka upp kanadíska dollarann sem gjaldmiðil sinn,“ segir bandaríski hagfræðingurinn Dean Baker og einn af stofnendum hugveitunnar Centre for Economic and Policy Research í grein á fréttavef arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Aljazeera í gær.
Baker segir að að ef Íslendingar hefðu eitthvað vit í höfðinu ættu þeir að þakka fyrir það á hverjum degi að Ísland hafi haft eigin gjaldmiðil í stað þess til að mynda að vera hluti af evrusvæðinu þegar efnahagshrunið hafi átt sér stað hér á landi. Eigin gjaldmiðill hafi gert landinu kleift að koma á mestum hluta þeirra aðlögunar sem hafi verið nauðsynleg í kjölfar hrunsins með því að leyfa íslensku krónunni að falla gagnvart helstu viðskiptaþjóðunum og stuðla þannig að minni innflutningi og auknum útflutningi.
Lítið atvinnuleysi miðað við evruríki í vanda
Baker segir að fall krónunnar hafi verið lykilatriði í því að stuðla að koma efnahagslífinu á Íslandi smám saman aftur í gang. Viðskiptajöfnuðurinn hafi orðið hagstæðari, hagvöxtur skilað sér að nýju og atvinnuleysi minnkað. Hann segir að atvinnuleysið á Íslandi nú sé mikið á íslenskan mælikvarða en líti mjög vel út í samanburði við þau evruríki sem hafi átt í efnahagserfiðleikum. Þannig sé atvinnuleysið 13,6% í Portúgal, 14,5% á Írlandi, 19,2% í Grikklandi og 22,9% á Spáni.
„Í stað þess að fagna gæfu sinni virðast leiðtogar Íslands staðráðnir í að koma landinu í sömu spennitreyjuna og nágrannar þeirra á evrusvæðinu. Ef Ísland gerðist aðili að einhverju stóru myndsvæði myndi það samstundis glata sveigjanleikanum sem veitti því vernd á meðan það jafnaði sig eftir hrunið. Af þeirri ástæðu ætti landið að fara sérstaklega varlega í það að gefa eftir stjórn peningamála sinna,“ segir Baker.
Hugmyndin um Kanadadollar sérstaklega furðuleg
Baker segir hugmyndina að taka upp Kanadadollar hins vegar vera „sérstaklega furðulega“. Í ljósi þess að Kanada sé mikill olíuútflytjandi þá sé líklegt að gengi kanadíska gjaldmiðilsins fylgi verðlagi á olíu. Það þýði að þegar olíuverð sé hátt muni gengi Kanadadollarans, og þá um leið gjaldmiðils Íslands, hækka. Það muni hafa þau áhrif að verðlag á vörum og þjónustu á Íslandi hækki gagnvart öðrum ríkjum.
„Það mun draga úr samkeppnishæfni Íslands í heimsviðskiptum. Innflutningur verður ódýrari frá útlöndum en á sama tíma verður íslensk framleiðsla - og þar með útflutningur landsins eins og ferðamennska - skreppa saman þar sem fólk mun telja Ísland of dýrt,“ segir Baker. Hann segir Kanadamenn eiga líka við sín vandamál að stríða. Þannig hafi það gerst á undanförnum mánuðum að talsverður fjöldi framleiðslufyrirtækja hafa ákveðið að flytja starfsemi sína til Bandaríkjanna til þess að auka samkeppnishæfni sína.
Baker lýkur greininni á því að segjast vona að almenningur á Íslandi sjái til þess að leiðtogar landsins taki skynsamari ákvarðanir nú en þegar þeir reyndu að halda því fram að allt væri í himnalagi í efnahagsmálum þjóðarinnar á sama tíma og fjármálakerfi landsins var við það að hrynja.