Kaupmenn við Laugaveg mótmæla

Björn Jón Bragason, talsmaður verslunareigenda við Laugaveg afhendir Jóni Gnarr, …
Björn Jón Bragason, talsmaður verslunareigenda við Laugaveg afhendir Jóni Gnarr, borgarstjóra, undirskriftir48 kaupmanna við Laugaveg þar sem frekari lokunum á bílaumferð er mótmælt. mbl.is/Golli

Fulltrúar 48 verslunar- og fasteignaeigenda við Laugaveg afhentu kl. 11 í dag borgaryfirvöldum undirskriftarlista ásamt greinargerð, þar sem öllum frekari fyrirætlunum borgaryfirvalda um lokun Laugavegar fyrir bílaumferð er mótmælt.

„Verslun hefur hrunið þá daga sem götunni hefur verið lokað fyrir umferð. Hún er varla svipur hjá sjón. Einfaldlega sá veruleiki sem við búum við að viðskiptavinir verslana vilja komast á sínum bíl og geta lagt honum nærri versluninni. Ef þeir fá ekki stæði þá fara þeir annað,“ segir Björn Jón Bragason, talsmaður umræddra verslunareigenda í miðborginni.

„Flestir viðskiptavinir verslana á þessu svæði koma líka gagngert til að versla í tilteknum búðum,“ segir í mótmælabréfinu til borgarráðs. Auk þess segir: „Þá er lokun götunnar aðför að ferðafrelsi aldraðra, öryrkja og annarra þeirra sem eiga erfitt með gang.“

Gatan skipulögð sem verslunargata

„Gatan er skipulögð sem verslunargata og þá hlýtur það að vera í forgangi hvað getur eflt hana og hvernig hún þrífst þá best sem verslunargata. Lokun götunnar fyrir bílafumferð gerir það ekki,“ segir Björn Jón.

Í mótmælabréfinu segir að lokun götunnar feli í sér breytingu á formi hennar og að þeir sem eigi fasteignir og stundi rekstur við götuna hafi ákveðnar lögmætar væntingar um að form hennar haldist. Einnig segir að ákvarðanataka borgaryfirvalda hafi ekki verið borin undir og hlotið samþykki meirihluta rekstraraðila við götuna.

Velta dróst saman í fyrra

„Tölur frá Ríkisskattstjóra um veltu á því svæði sem var lokað fyrir bílaumferð í fyrra sýna minni heildarveltu í júlímánuði 2011, samanber júlímánuð árið áður,“ segir í mótmælabréfinu. Þá segir að þetta sé staðreynd, þrátt fyrir gott veður.

Einnig kemur fram að verslun hafi stórlega dregist saman á Þorláksmessu í fyrra vegna þess að bílaumferð um Laugaveg hafi verið stöðvuð á hádegi á mesta verslunardegi ársins. „Fyrir vikið dróst verslun stórlega saman þann daginn og var tap verslunareigenda stórfellt,“ segir í bréfi til borgarráðs.

Björn Jón segir að Laugavegur sé vistgata þannig að umferð þar sé hæg og að hún ógni engum. Þvert á móti fari reiðhjólamenn hraðar en vélknúin umferð. „Bílastæðum hefur verið fækkað mjög mikið þannig að það er mjög mikið pláss á gangstéttinni fyrir gangangi vegfarendur,“ segir hann einnig.

Um sjónarmið Íbúasamtaka Miðborgarinnar segir Björn Jón: „Ég hef reyndar heyrt ýmis sjónarmið íbúa í þessu sambandi. En ég held að það skipti megin máli að verslunin geti þrifist.“

Hann segir mikla umfjöllun hafa verið um þessi mál í Bretlandi, en þar hafi verið mikil hnignun verslunar á aðal verslunargötum. Þar segir hann að verið sé að skoða hvernig megi fjölga bílastæðum og að í umræðunni sé að afnema gjaldskyldu í nágrenni aðal verslunargatna. Yrði slíkt tekið upp hér segir Björn Jón að það kæmi íbúum miðborgarinnar einnig til góða.

„Með lokunum gatna er því beinlínis vegið að lífsviðurværi hundruða kaupmanna, verslunarmanna, annarra rekstraraðila og starfsmanna fyrirtækja, auk þess sem virði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á svæðinu er stórlega skert. Við mótmælum því öllum frekari fyrirætlunum um lokun Laugavegar og Skólavörðustígs fyrir bílaumferð,“ segir að lokum í bréfi kaupmanna til borgarráðs.

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur hlynnt lokun

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur ræddi mótmæli verslunarmanna í gær. Magnús Skúlason, formaður samtakanna segir stjórnina hlynnta fyrirhuguðum lokunum í sumar. Hann segir samtökin hafa haft efasemdir um þessar lokanir í fyrra vegna áhyggja af því að umferðin kynni í staðin að beinast inn í íbúðarhverfin og vegna einstaka íbúa sem óvíst var með að kæmust að húsum sínum.

„En svo fannst okkur þetta koma mjög vel út og við erum eindregið hlynnt þessu. Fannst þetta bæta mannlífið heldur betur,“ segir Magnús

„Það er náttúrulega allt of mikil bílaumferð líka finnst okkur, sem fylgir mengun. Við trúum ekki endilega heldur á að kúnnarnir komi ekki ef þeir komist ekki alveg upp að dyrum.“

Aðspurður um áhyggjur og sjónarmið kaupmanna segir Magnús: „Þetta var ekki reyndin í fyrra. Þetta var í mánuð fyrst. Síðan vildu þeir framlengja þessari lokun. Þeir voru á því í fyrra þannig að þetta kemur okkur í opna skjöldu núna.“

Telja að þetta þurfi meiri tíma til að þróast

Magnús telur að þetta þurfi að fá meiri tíma til að þróast og bendir á Kaupmannahöfn í þessu samhengi. Þar hafi menn fyrir 40 árum lokað Strikinu, aðalverslunargötu borgarinnar, fyrir bílaumferð og það hafi haft jákvæð áhrif á veltu kaupmanna við götuna.

„Við teljum að það þurfi að gefa þessu aðeins meiri tíma,“ segir Magnús og bætir við: „Ég skil það alveg að á Þorláksmessu vilja menn kannski ekki loka eins og gerði síðast.“ Þá hafi verið leiðinlegt veður og gatan hafi lokaði of snemma að hans mati. „En við erum fyrst fremst að tala um sumartímann,“ segir hann að lokum.

Laugavegur sumarið 2011, en hluti hans var gerður að göngugötu. …
Laugavegur sumarið 2011, en hluti hans var gerður að göngugötu. Kaupmenn eru ósáttir við sömu áform sumarið 2012. mbl.is/Ómar Óskarsson
Frá göngugötuhluta Laugavegs sumarið 2011.
Frá göngugötuhluta Laugavegs sumarið 2011. mbl.is/Ómar Óskarsson
Magnús Skúlason, formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkurborgar.
Magnús Skúlason, formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkurborgar. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert