„Samþykkt þeirra er mjög mikilvæg að mínu mati og ég tek undir þeirra málflutning,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að beita sér fyrir stofnun félags um smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju.
Bæjarstjórnin leitar til ríkisins, sveitarfélaga á áhrifasvæði Landeyjahafnar, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta um þátttöku í ferjufélaginu. Ögmundur vill að ríkið komi þar að enda sé það nauðsynlegt vegna þess hversu stórt verkefnið er. „Við höfum verið að ræða saman um hvaða form eigi að hafa á aðkomu hins opinbera að fjármögnun. Ein hugmyndin er að stofna félag um smíðina og bjóða reksturinn síðan út,“ segir Ögmundur og tekur fram að sér lítist prýðilega á framtak Eyjamanna.
Nýja ferjan á að vera sérhönnuð til siglinga í Landeyjahöfn.