Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlækningum segir sér brugðið í kjölfar skrifa alþingismannsins Þórs Saari um hrottafengna árás á lögmannsstofu í fyrradag. Þingmaðurinn fari frjálslega með staðreyndir og grafi undan trausti á sér. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, skrifaði á bloggsíðu sína að ekki væri undarlegt né óskiljanlegt að árás, líkt og sú sem gerð var á lögmannsstofu í Lágmúla á mánudag, hafi verið framin.
Hann sagði það fjárhagslega hrun sem varð hér hafa valdið þúsundum fjölskyldna miklum fjárhagslegum skaða. „Ótal fjölskyldur hafa splundrast og ótal manns hafa í örvæntingu tekið eigið líf,“ skrifaði Þór.
Engilbert sagði við RÚV að Þór færi frjálslega með staðreyndir og benti á að samkvæmt tölum Hagstofunnar hafi sjálfsvígum ekki fjölgað eftir hrun.