„Mér er ekki örgrannt um að þetta hafi verið gert til að villa mönnum sýn ... þannig að skuldir á hendur einum og sama aðilanum skiptust á marga parta“, sagði Jón Sigurðsson, fv. stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, fyrir Landsdómi í dag. Hann vildi stöðva Icesave en lagaheimild til þess skorti.
Með tilvísuninni um villandi eignarhald vildi Jón nefna dæmi um hvers vegna veikur eiginfjárgrunnur bankanna hefði ekki orðið ljós fyrr en við efnahagshrunið.
Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis spurði Jón hvort hann hefði vitneskju um að stjórnvöld hafi þrýst á bankana um að minna efnahagsreikninginn, þ.e. umsvifin, eða flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.
Svaraði Jón þá að honum væri ekki kunnugt um það.
Sigríður spurði þá frekar út í þetta atriði og svaraði Jón þá því til að hafa þyrfti í huga „að það er ekkert vald í lögum sem gerir stjórnvöldum kleift að ákveða stærð banka frekar en annarra fyrirtækja“. Sagði Jón svo að sala eigna á árinu 2008 til að minnka bankanna hefði „ekki skilað neinum árangri“.
Löggjafinn hafi staðfest að skort hafi á lagastoð fyrir því að grípa til slíkra aðgerða með lagasetningu. Þá hafi það ekki verið í verkahring Fjármálaeftirlitsins að gera tilmæli um lagasetningu heldur tryggja að lögum og reglum sé fylgt af fjármálafyrirtkjum.
Ekki lagastoð fyrir því að stöðva Icesave
Sigríður spurði Jón hvort komið hefði til álita að standa í vegi fyrir stofnun Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi.
Svaraði Jón þá því til að hann hefði rætt það oft við lögfræðinga hjá Fjármálaeftirlitinu, meðal annars forstjórann, Jónas Fr. Jónsson, sem væri líka lögfræðimenntaður, og lögfróða menn víðar og að það „hefði verið eindregin skoðun þeirra sem ég spurði um þetta og ég gerði það oftar en einu að fyrir því væri ekki lagastoð“.
Hitt sé annað mál að hugsanlega hefði mátt beita rannsóknarhagsmunum eða öðrum „orðaleppum í lögunum“ til að segja forystumönnum Landsbankans að þeir mættu ekki hefja söfnun innlána með Icesave-reikningum.
Eftirlitsskylda gistiríkisins ríkari
Jón vék að eftirlitsskyldu gistiríkisins, þ.e. Hollands og Bretlands í tilviki Icesave, sem væri „rík og miklu ríkari en komið hefur fram í umræðum“. Samkvæmt EES-samningnum fari „gistiríkið með eftirlit með innlánssöfnun útibúa“. Viðurkenndi Jón svo að það væri „alveg ómótmælanlegt að það lítur ekki vel út að þeir skyldu hafa komist af stað“ og átti við stofnun Landsbankans á Icesave.
Frasinn „tær snilld“ fékk byr undir báða vængi vegna þeirra ummæla eins forystumanna Landsbankans að þessi orð ættu við Icesave.
Jón rifjaði upp þessi ummæli.
„Ég held að það hafi ekki verið það sem bankastjórinn kallaði það, „tær snilld“ ... í því svari hans láðist að geta þess í hvað peningarnir höfðu farið,“ sagði Jón um hin fleygu orð.
Evrópa lokaðist íslensku bönkunum árið 2006 er svokölluð „mínikrísa“ skall á.
Fram kom í máli Jóns að margir hafi hvatt íslensku bankanna til að hverfa frá því sem nefnt er á bankamáli „markaðsfjármögnun“ en taka í staðinn að safna innlánum, líkt og raunin varð með svo afdrifaríkum hætti með Icesave.
Ógæfuleg auglýsingaherferð Landsbankans
Andri Árnason, verjandi hins ákærða, Geirs H. Haarde, spurði Jón hvort Seðlabankinn hafi fagnað þessari breytingu á fjármögnun, þ.e. með innlánum.
Jón kvaðst þá ekki vita hvernig seðlabankamenn hefðu hugsað þetta. „Ég segi fyrir mig sjálfan að þessi öra söfnun innlána í annarri mynt í öðrum löndum hafi verið ógæfuleg,“ sagði Jón og nefndi hvernig í auglýsingum fyrir Icesave hefði fremur verið talað um að reikningarnir væru tryggðir samkvæmt evrópsku regluverki en hver raunveruleg staða bankans var. „Þeir voru að sigla í fölsku skjóli að mínu áliti,“ sagði Jón og gagnrýndi þessa framsetningu bankans.
Notuðu gamalt viðtal í áróðursskyni
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari spurði Jón út í viðtal Moment, tímarits á vegum Landsbankans, við hann á fyrri helmingi árs 2008, þar sem haft var eftir honum að staða íslensku bankanna væri traust.
Svaraði Jón þá mjög ákveðið að hann hefði talið að um innanhúsrit á vegum Landsbankans væri að ræða og að viðtalið hefði verið tekið áður en hann hafði fyrst vitneskju um að bankinn ætlaði að stofna Icesave-reikningana.
En viðtalinu var slegið upp á forsíðu með tilvitnuninni „Finances of the Icelandic banks bascially sound“, með vísan til viðtalsins við Jón, en það útleggst „Fjárhagslegur grundvöllur íslensku bankanna er traustur“, í lauslegri þýðingu.
Var fyrirsögnin á forsíðu: „Icesave launched in the Netherlands“ eða „Icesave ýtt úr vör í Hollandi“.