Auka þarf viðbúnað í almannakerfinu verulega og má þar nefna vegna atburða eins og eldgosa, jarðskjálfta og ýmiss konar flóða, að því er fram kemur í áhættuskoðun almannavarna sem birt er í dag.
Í áhættuskoðun almannavarna er leitast við að skilgreina og kortleggja hættur, sem almannavarnir gætu þurft að takast á við í framtíðinni. Þessar hættur eru af ýmsum stærðum, gerðum og uppruna, með mismunandi líkur, tíðni og alvarleika.
Á árunum 2008 til 2011 var unnin áhættuskoðun fyrir allt landið til að kortleggja hættur og áhættur á landinu. Unnið var með heimamönnum í öllum 15 lögregluumdæmunum með almannavarnanefndum, lögreglustjórum og fleirum. Ekki hafa öll umdæmi tekið afstöðu til og metið alla þá þætti sem áhættuskoðunin náði til heldur hafa þau valið áhættur sem þau telja að gætu haft áhrif í þeirra umdæmi.
„Útbúa þarf hópslysaáætlanir í flestum umdæmum bæði á landi og sjó. Skilgreina þarf viðbúnað og viðbrögð í almannavarnakerfinu vegna ýmiss konar hættulegra efna, bruna þeirra og mengunar frá þeim.
Í mörgum umdæmum er óskað eftir viðbragðsáætlunum vegna kjarr- og gróðurelda og að áhættan verði skoðuð frekar vegna slysa og óhappa í stórum skemmtiferðaskipum við landið.
Þá er mikilvægt að styrkja verulega viðbúnað og viðbrögð innan almannavarnakerfisins vegna stórfelldra bilana og truflana á helstu innviðum landsins eins og veitum, fjarskiptum, samgöngum og öryggismálum,“ segir á vef almannavarna.