Í dag var minnt á alþjóðlegan baráttudag kvenna, 8. mars, með því að í flugi Icelandair til og frá Glasgow var áhöfnin öll, þ.e. flugstjóri, flugmaður og flugfreyjur, eingöngu skipuð konum.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að framan af flugsögunni þekktist ekki að karlar tækju að sér að sjá um þjónustu við farþega um borð, og ennþá síður að konur sæju um að fljúga flugvélunum. Þeir múrar hafa fyrir löngu fyrir rofnir, þó svo meirihluti flugmanna Icelandair sé karlar og meirihluti flugfreyja/þjóna Icelandair sé konur, segir í tilkynningu frá Icelandair.
Það var á kvenréttindadaginn 19. júní 1999, sem það gerðist í fyrsta sinn í sögunni að áhöfn í millilandaflugi til og frá Íslandi var eingöngu skipuð konum. Það hefur gerst nokkrum sinnum síðan. Hinn 23. júní árið 2001 var svo annað flug sem líka markaði tímamót, en þá gerðist það í fyrsta sinn í sögu áætlunarflugs á Íslandi að hefðbundnum kynhlutverkum var víxlað - flugstjóri og flugmaður voru kvenkyns, en allar flugfreyjurnar voru karlkyns, segir í tilkynningu Icelandair.