Hreiðar: Pólitíkin gegn okkur

Hreiðar Már yfirgefur landsdóm í Þjóðmenningarhúsinu.
Hreiðar Már yfirgefur landsdóm í Þjóðmenningarhúsinu. mbl.is/Kristinn

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, segir Seðlabanka Íslands hafa fylgt þeirri pólitísku ákvörðun að meina bankanum að gera upp í annarri mynt. Tæknilegar skýringar gegn uppgjöri í annarri mynt hafi verið fyrirsláttur. Pólitíkin hafi ráðið.

„Mér blöskrar að hlusta á þetta,“ sagði Hreiðar Már og sagði Davíð Oddsson hafa tekið ákvörðun um að kaupa hlutabréf fyrir 800 milljónir evra fyrir Glitni, á sama tíma og hann segðist hafa vitað í hvað stefndi. Á svipaðan hátt blöskraði Hreiðari Má að hlusta á þann málflutning Arnórs Sighvatssonar að hann hefði séð hrunið fyrir árið 2005. 

Fullyrti Hreiðar Már að það hefði verið pólitísk afstaða að stærsti banki landsins mætti ekki gera upp í annarri mynt.

Hreiðar Már gagnrýndi stóryrði um Kaupþing í sal Landsdóms síðustu daga og vísaði í rökstuðningi sínum til þess að kröfuhafar hefðu fengið 80% upp í kröfur. „Það eru ekki margir alþjóðlegir bankar sem hefðu gert það,“ sagði Hreiðar Már og snerist til varnar.

Bankinn hafi gert allt til að tryggja upplýsingamiðlun á fundum með matsfyrirtækjum.

Sú áætlun að skipta bankanum þannig upp að norræna starfsemin flyttist undir danska bankann FIH og alþjóðlega starfsemin undir Singer & Friedlander hafi verið raunhæf og því rangt sem haldið hafi verið fram fyrir Landsdómi að erlend fjármálaeftirlit hefðu stöðvað slíkan flutning vegna vondrar eiginfjárstöðu Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert