Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, segir að stjórnendur Landsbankans hafi á miðju ári 2008 óskað eftir aðstoð íslenskra stjórnvalda við að leysa ágreining við breska fjármálaeftirlitið um Icesave-innlánsreikningana.
Jón Þór kom fyrir Landsdóm í morgun. Hann sagðist hafa rætt margoft við Björgvin um þá hættu sem vofði yfir bankakerfinu. Hann sagðist einnig hafa rætt þessi mál við Geir H. Haarde.
Jón Þór sagði að sér og Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, hefði í febrúar 2008 verið falið að koma fram með tillögur um viðbrögð við fjármálaáfalli. Hann sagðist hafa lagt til að bankarnir færðu ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Tillögurnar hefðu einnig fjallað um húsnæðislánamarkaðinn og erlenda innlánsreikninga. Eina raunhæfa lausnin á þessum tíma hefði hins vegar verið að sínu mati að Ísland gerðist aðili að stærra myntkerfi. Staðan hefði aftur á móti verið þröng og allar aðgerðir stjórnvalda á þessum tíma hefðu getað verið skaðlegar fyrir bankakerfið. Ákveðið hefði verið að vandlega athuguðu máli að grípa ekki til aðgerða.