Ökumaður pallbifreiðar missti stjórn á bifreið sinni á veginum milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur með þeim afleiðingum að hún valt á toppinn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Kirkjubæjarklaustri var mjög mikil hálka á slysstað, hitastig við frostmark og 15-20 cm snjóþekja á veginum.
Lögreglan fékk tilkynningu um óhappið klukkan 13.45 og sluppu bæði ökumaður og farþegi ómeiddir en bifreiðin er töluvert skemmd eftir veltuna.
„Ég þurfti að fara frá Klaustri og það var mjög erfið færð. Ég þurfti að fara varlega þótt maður sé vel útbúinn og með drif á öllum,“ sagði varðstjóri lögreglunnar á Kirkjubæjarklaustri í samtali við mbl.is fyrir skömmu.
Þrátt fyrir að búið sé að ryðja veginn er enn mikil hálka. Beinir því lögreglan þeim tilmælum til ökumanna að huga vel að akstrinum.