Stjórnlagaráð kemur saman á ný klukkan tíu í dag í húsnæði menntavísindasviðs Háskóla Íslands til þess að ræða og síðan svara spurningum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur beint til ráðsins varðandi drög þess að nýrri stjórnarskrá sem ráðið skilaði af sér síðastliðið sumar. Stjórnlagaþing mun að þessu sinni starfa fram á næsta sunnudag 11. mars.
Eins og mbl.is hefur greint frá hafa 22 fulltrúar stjórnlagaráðs boðað komu sína á fundinn af þeim 25 sem ráðið skipaði. Þrír eru forfallaðir. Það eru þau Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs, Pawel Bartoszek og Andrés Magnússon.
Öll verða þau stödd erlendis og sjá sér ekki fært að mæta til fundarins. Salvör verður á fundum á sama tíma, Pawel er búsettur erlendis og Andrés er farinn til starfa í Strasbourg. Þess utan hafa bæði Salvör og Pawel gagnrýnt mjög hvernig staðið hefur verið að málinu af hálfu Alþingis.
Að sögn Þorsteins Fr. Sigurðssonar hefur undirbúningur fyrir fundinn gengið vel og hafa fulltrúarnir verið í sambandi fyrir hann til þess að undirbúa sig. Aðspurður segir hann tímann vissulega takmarkaðan sem stjórnlagaráði sé úthlutað til verksins en það sé einfaldlega það sem hún þurfi að vinna með.