Samtökin InDefence skora á saksóknara Alþingis að kalla til vitnis í Landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, sex erlenda einstaklinga og gera um leið athugasemd við að einungis séu íslenskir ríkisborgarar kallaðir fyrir dóminn.
„Hér vantar innsýn í viðhorf erlendra málsaðila enda þurfa dómendur að lokum að skera úr um sekt eða sýknu hins ákærða og ljóst að neðangreindir aðilar geta vitnað um ýmis lykilatriði við mat á nokkrum liðum ákærunnar í landsdómsmálinu,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
Einstaklingarnir sex eru Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, Hector Sants, forstjóri breska fjármálaeftirlitsins, Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Joaquin Almunia, yfirmaður peningamála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, og að lokum yfirmaður innistæðutrygginga innan sambandsins.
InDefence vill meðal annars að svör verði fengin við því hvers vegna hryðjuverkalögum var beitt gegn Íslandi af breskum stjórnvöldum, hvað hafi verið því til fyrirstöðu að færa Icesave-netbankann í breskt dótturfélag og í hverju tilboð seðlabankastjóra Bretlands um aðstoð við að minnka íslenska bankakerfið hafi falist.
Ennfremur hvers vegna seðlabanki Bandaríkjanna hafi neitað Íslendingum um lánafyrirgreiðslu haustið 2008, hvers vegna Ísland hafi ekki fengið aðild að fjármálastöðugleikasamningi Evrópusambandsins og hvort það sé réttur skilningur að ekki sé ríkisábyrgð á innistæðutryggingum innan sambandsins.
Þá er ennfremur skorað á Landsdóm að veita almenningi beinan aðgang að réttarhöldunum í gegnum ljósvakamiðla og aðgengi að málsskjölum. „InDefence-hópnum þykir það miður að ekki séu nýttar undanþáguheimildir laga til að tryggja beinan aðgang að upplýsingum og afritum af frásögnum aðila og vitna í dómsmálinu, sem á sér ekki hliðstæðu.“