Bárður Daníelsson, verkfræðingur og arkitekt, er látinn, 93 ára að aldri. Bárður fæddist á Kirkjubóli í Önundarfirði 3. október árið 1918. Foreldrar hans voru Daníel Benediktsson, bóndi og sjómaður, og Jónína Loftsdóttir húsmóðir.
Bárður lauk prófi í byggingarverkfræði frá Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi í Svíþjóð 1948 og prófi í arkitektúr lauk hann frá sama skóla árið 1960.
Hann var verkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins á árunum 1948 til 1952 og annaðist athuganir á virkjanakostum og hafði eftirlit með virkjunarframkvæmdum.
Á árunum 1952 til 1954 var Bárður verkfræðingur hjá Brunabótafélagi Íslands. Hann rak lengi eigin verkfræðistofu allt frá árinu 1955 og eigin arkitektastofu rak hann frá 1960. Bárður hannaði margvísleg mannvirki víða um land á starfsferli sínum.
Bárður var brunamálastjóri á árunum 1970 til 1978 og sat í Skipulagsstjórn ríkisins á árunum 1967 til 1978.
Bárður tók einnig þátt í stjórnmálum en hann var fulltrúi í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Þjóðvarnarflokkinn á árunum 1954 til 1958.
Eftirlifandi eiginkona Bárðar er Aldís Bryndís Hansen.