Búið er að loka Holtavörðuheiði, en þar er stórhríð. Vegfarendum er bent á að fara Bröttubrekku og Laxárdalsheiði.
Hálka, éljagangur og skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka og él í Þrengslum. Þæfingur og skafrenningur er á Mosfellsheiði. Á öðrum leiðum á Suðurlandi er víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja og éljagangur.
Á Reykjanesbraut og flestum öðrum leiðum á Suðurnesjum er hálka og víða éljagangur. Skafrenningur er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.
Á Vesturlandi er víðast hvar hálka, éljagangur og skafrenningur. Á Holtavörðuheiði er þæfingur og stórhríð.
Snjóþekja eða hálka er á flestum leiðum á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum og í Reykhólasveit.
Á Norðurlandi vestra eru víða hálkublettir eða snjóþekja í Húnavatnssýslu en greiðfært á láglendi í Skagafirði. Hálka er á Þverárfjalli, hálka og skafrenningur á Vatnsskarði en snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði.
Hálka er víða á Norðurlandi eystra og einhver éljagangur í Eyjafirði. Skafrenningur er á Hófaskarði.
Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á fjallvegum en annars víða greiðfært.
Á Suðausturlandi er hálka, snjóþekja og víða éljagangur austur að Höfn í Hornafirði en að mestu greiðfært þar fyrir austan. Skafrenningur er fyrir vestan Vík í Mýrdal og á Mýrdalssandi.