Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði við skýrslugjöf hjá Landsdómi fyrir stundu að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefði ekki komið þeim upplýsingum á framfæri við ríkisstjórnina að bankakerfið stæði á brauðfótum. Um vorið 2008 hefði Seðlabanki Íslands sagt stöðuna góða.
Jóhanna var spurð að því af Sigríði J. Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, hvað farið hefði á milli ráðherra stjórnarinnar og Davíðs á ríkisstjórnarfundi 30. september 2008.
„Hann kom inn á miðjan ríkisstjórnarfund ... til að greina okkur frá því að hann teldi að bankakerfið væri að hrynja... [H]ann taldi að það þyrfti nánast að loka hér landinu, staðan væri það erfið. [H]ann talaði um að það þyrfti að setja hér þjóðstjórn, sem ekki voru allir ánægðir með. Hann var í miklu uppnámi þegar hann kom, sem er ekki skrítið miðað við skilaboðin"
Spurð af Sigríði hvort Davíð hefði áður komið varnaðarorðum á framfæri svaraði Jóhanna neitandi.
Ámælisverð framsetning
„Nei,“ sagði Jóhanna og vísaði til rits Seðlabanka Íslands, Fjármálastöðugleiki, frá maí 2008. „[É]g tel þetta mjög ámælisvert... því ég var mjög undrandi þegar ég las þetta... það gerði mig rólegri að lesa þetta og sjá að það væri allt í stakasta lagi í bankakerfinu,“ sagði Jóhanna og benti á að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hefðu fengið vitneskju um bankakerfið í gegnum þetta rit „sem margir lesa, að hér væri nánast allt í stakasta lagi, það var líka það sem róaði mann,“ sagði Jóhanna.