Heimila fjármálafyrirtækjum samstarf

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Heiðar

Samkeppniseftirlitið hefur í dag heimilað með ákvörðun nr. 4/2012 fjármálafyrirtækjum afmarkað samstarf sem miðar að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengisbundin lán, í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar sl.

Við ákvörðunina er horft til mikilvægis þess að hraða endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja. Er heimildin bundin ítarlegum skilyrðum sem lúta að formi og umgjörð samstarfsins og háttsemi bankanna í tengslum við úrvinnslu umræddra lána.

„Áhersla er lögð á að neytendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar í ávinningi samstarfsins. Er leitast við að tryggja það með skilyrðum sem kveða á um þátttöku umboðsmanns skuldara í samráðinu og fulltrúa Neytendastofu og talsmanns neytenda einnig gert mögulegt að taka þátt. Einnig er sett það skilyrði að samstarfið bindi ekki hendur einstakra lánveitenda til þess að veita viðskiptavinum sínum betri kjör auk þess sem samstarfsaðilum er bannað að krefjast málskostnaðar í dómsmálum sem höfðuð verða í kjölfar samvinnunnar.

Ennfremur er það skilyrði sett að fjármálafyrirtækin fresti fullnustuaðgerðum vegna krafna sem ljóst er að falli undir dóm Hæstaréttar, meðan á samstarfinu stendur. Samstarfið er afmarkað að öðru leyti við fjármálafyrirtæki sem veitt hafa útlán sem fallið geta undir fyrrgreindan dóm Hæstaréttar og ber hverju þessara fyrirtækja að skipa fastan fulltrúa sem sinnir samstarfinu fyrir þeirra hönd. Jafnframt skal skrásetja samstarfið og halda gögn um fundi og ákvarðanir. Er með þessu reynt að girða fyrir að samstarfið leiði til víðtækara samráðs,“ segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka