„Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði hugtakið krosseignatengsl,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra við vitnaleiðslu fyrir Landsdómi í dag um þekkingu sína á eignatengslum milli bankanna þegar erfiðleikar þeirra voru til umræðu um sumarið 2008.
Fram hefur komið í vitnisburðum nokkurra vitna að hagsmunir bankakerfisins hafi verið svo samtengdir að ef einn banki félli myndu þeir allir falla, m.a. vegna svokallaðs orðsporsvanda sem kæmi upp ef ímynd eins íslensks banka myndi laskast.
„Í fyrsta lagi kom mér aldrei til hugar að ef einn banki [félli]... færu allir á hausinn... Ég upplýsi þetta í fávísi minni,“ sagði Össur er ofangreind greining var borin undir hann af Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Landsdóms, sem bað vitnið um að skýra tilvísun í þetta atriði fyrr í skýrslugjöfinni.
Tók Össur þá fram að honum hefði þrisvar verið tjáð að ef einn bankanna félli myndi það ekki hafa þær afleiðingar að þeir féllu allir þrír, Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir.
Skilningurinn staðfestur á klósetti
Vitnaði Össur meðal annars til fundar með Sigurjóni Þ. Árnasyni, fv. bankastjóra Landsbankans, og öðrum þar sem sá síðarnefndi hafi staðfest þetta. Þá hafi hann fengið þetta staðfest í gegnum samtal sem Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, átti við áhrifamann í Landsbankanum, að líkindum hinn bankastjórann, Halldór J. Kristjánsson.
Loks hafi Össur fengið þennan skilning staðfestann í samtali við mann á salerni, sem hann nefndi „Guðmund“ í vitnaleiðslunni, af því að hann mundi ekki nafnið.