Tillögur að frumvarpi um réttindi transfólks

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið. mbl.is/Hjörtur

Nefnd sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra skipaði í mars 2011 og fól að gera tillögur að úrbótum á réttarstöðu transfólks hefur lokið störfum og skilað ráðherra tillögu að frumvarpi til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda.  

Nefndin var skipuð í tengslum við álit umboðsmanns Alþingis frá 27. apríl 2009 í máli nr. 4919/2007 þar sem fram kom að réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda væri að ýmsu leyti óskýr. Einnig var höfð hliðsjón af tillögu til þingsályktunar sem lögð var fram á Alþingi í nóvember 2009 um bætta réttarstöðu þessara einstaklinga.

Í byrjun var rætt innan nefndarinnar hvort löggjöf um réttarstöðu transfólks ætti að vera í formi heildarlaga eða hvort tryggja mætti réttindi þess með breytingum á öðrum lögum, svo sem lögum um landlækni og lýðheilsu, lögum um mannanöfn og barnalögum. Nefndin ákvað að leggja fram tillögu að heildstæðu frumvarpi; „frumvarpi til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda“ sem er ætlað að taka af tvímæli um þá þætti sem bent hefur verið á að þurfi að skýra. Í greinargerð með frumvarpinu sem nefndin gerir tillögu um kemur fram að hún hafi talið þessa leið skýrari út frá lagatæknilegu sjónarhorni og eins væri með því lögð áhersla á að ekki væri dregin dul á stöðu þessa hóps.

Sérfræðinefnd um kynáttunarvanda

Í frumvarpinu er kveðið á um feril einstaklings með kynáttunarvanda hvað varðar rétt til heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu vegna leiðréttingar á kyni og nafnabreytingu. Gert er ráð fyrir að einstaklingur leiti fyrst til teymis Landspítala um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð. Eftir að meðferð og reynslutímabili í gagnstæðu kynhlutverki lýkur, samtals 18 mánaða tímabil að lágmarki, og að uppfylltum öðrum skilyrðum, getur viðkomandi sótt um staðfestingu á því að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Samkvæmt frumvarpinu væri sótt um til sérfræðinefndar um kynáttunarvanda sem hefði það hlutverk að staðfesta að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni og ef við á, hvort hann teljist hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar. Eftir að einstaklingur hefði hlotið slíka staðfestingu nyti hann allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér, segir í athugasemdum með frumvarpi nefndarinnar.

Í frumvarpinu er fjallað um skráningu kynleiðréttingar og nafnabreytingu í þjóðskrá og er að mestu gert ráð fyrir sömu stjórnsýsluframkvæmd og nú tíðkast. Mælt er fyrir um óbreytta réttarstöðu barns gagnvart foreldri sem fengið hefur staðfestingu á að það tilheyri gagnstæðu kyni. Loks er fjallað um hvernig bregðast skuli við aðstæðum þegar einstaklingur sem hlotið hefur staðfestingu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda vill hverfa aftur til fyrra kyns.

Formaður nefndarinnar var Laufey Helga Guðmundsdóttir en aðrir nefndarmenn voru Skúli Guðmundsson, Óttar Guðmundsson, Margrét Steinarsdóttir og Anna K. Kristjánsdóttir.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem tekið hefur við tillögu nefndarinnar mun á næstunni ákveða hvert verður framhald málsins en áformað er að leggja fram frumvarp um bætta réttarstöðu þeirra einstaklinga sem um ræðir á yfirstandandi þingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert