Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, segir hægri og vinstri úrelt hugtök í stjórnmálum, ekki bara hér á landi, heldur víða um heim. Hún segir að hún hefði ekki trúað því að óreyndu að VG myndi hlýða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í einu og öllu og útilokar ekki nýja samvinnuhreyfingu.
„Hver hefði trúað því fyrir kosningarnar 2009 að Vinstri græn, sem kalla sig vinstri flokk, myndu hlýða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í einu og öllu og meira að segja tvívegis framlengja samninginn við hann. Ekki hefði ég trúað því að AGS, sem af mörgum er álitinn ein helsta ógn vinstristjórna, yrði besti vinur fjármálaráðherra VG!“ segir Lilja í viðtali í Sunnudagsmogganum í dag.
„Hægriflokkar leggja áherslu á markaðslausnir og það má segja að allir íslensku flokkarnir geri það; meira að segja Samfylking og VG sem eru að tala um að einkavæða Landsvirkjun og Landsbanka að hluta. Yfirleitt telja vinstriflokkar að ríkisafskipti séu lausnin. En við viljum þriðju leiðina, sem Framsókn byrjaði upphaflega með. Að leggja áherslu á samvinnufyrirtæki, frjáls félagasamtök ekki síður en einkafyrirtæki og ríkisfyrirtæki. Við viljum stóran ríkisbanka og sparisjóðakerfi, en höfum síður en svo nokkuð á móti einkabönkum, sé grundvöllur fyrir því. Öll þrjú rekstrarformin eiga að geta gengið,“ segir Lilja.
„Við viljum líka sjá fleiri fyrirtæki í eigu starfsmanna og samvinnurekstur. Slíkt rekstrarform virkjar einstaklinginn til athafna. Áhersla á að efla ólík rekstrarform er mikilvægt tæki í baráttunni gegn fákeppni, spillingu og forréttindum sem henni fylgja.“
Ertu að tala um nýja samvinnuhreyfingu?
„Já, hvers vegna ekki? Ég held að það sé kominn sá tímapunktur að við séum búin að fara of langt í þessari einkavæðingu og einstaklingsáherslu. Við þurfum að bakka til baka og endurmeta það sem reyndist okkur vel og við misstum sjónar á.“
Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsmogganum í dag