Umfjöllun um landsdómsmálið í Svíþjóð

Geir H. Haarde og Andri Árnason verjandi hans í Þjóðmenningarhúsinu …
Geir H. Haarde og Andri Árnason verjandi hans í Þjóðmenningarhúsinu í vikunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í Svíþjóð er sagt að landsdómsmálið kljúfi íslensku þjóðina í tvennt. Rætt var við rithöfundinn Hallgrím Helgason, sem segir að málið sé hreinsandi fyrir þjóðina og að landsdómsmálið sé uppgjör við fortíðina.

Í  Svenska Dagbladet er umfjöllun um landsdómsmálið á Íslandi eftir blaðamanninn Anders Svensson.

Fram kemur að aldrei áður hafi neinn verið dreginn fyrir landsdóm á Íslandi, en því jafnframt haldið fram að enginn íslenskur forsætisráðherra hafi áður leitt þjóð sína í þá krísu sem íslenska þjóðin hefur nú þurft að ganga í gegnum.

Í greininni er fjallað um íslenska hagvöxtinn á „góðærisárunum“ sem var í mörg ár í röð á hraðri uppleið og að í pólitískri umræðu hafi jafnvel verið svo komið að ekki væri lengur hægt að bera Ísland saman við hin Norðurlöndin, svo fjarlægt hafi það verið orðið þeim.

Í grein Svenssons segir að íslenskir fjárfestar og bankamenn hafi snúið Evrópu inn á leikvöll fyrir óhrædda kaupsýslumenn með ótakmarkað lánstraust. Þeir (Íslendingarnir) hafi keypt stórverslanir, fasteignir og náð til sín sparifjáreigendum sem lögðu til þeirra fjármagn á hæstu mögulegum vöxtum. Ísland hafi verið orðið viðskiptaveldi sem óx og vakti undrun, vantraust og öfund. Á endanum hafi þó farið svo að þetta veldi hafi endað inn í djúpri kreppu.

„Þegar heimshagkerfið fór að dragast saman hrundi þetta heimsveldi á nokkrum vikum og eftir var gríðarlega skuldsett samfélag og þjóð í áfalli,“ segir í greininni. Íslandi hafi á eftir verið líkt við Nígeríu, Sikileyjar og Kúbu.

Fram kemur að Geir H. Haarde hafi beðið í langan tíma til að gefa skýrslu sína fyrir landsdómi og að segja sína útgáfu af því hvað leiddi þjóðarbúið til hruns. Því er lýst hvernig Geir og ríkisstjórn hans hafi brugðist við hruninu, m.a. með setningu neyðarlaganna.

Fleiri en Geir í dómsölum þessa dagana vegna hrunsins

Geir er ekki sá eini sem hefur farið ferðalagið af hátindinum og inn í dómsalina. Eins og stendur eru um eitt hundrað sakamál í gangi vegna fjármálakreppunnar,“ segir í greininni, en þar er einnig sagt frá Lárusi Welding og að í þessari viku hafi réttarhöld yfir stjórnendum Kaupþings hafist og að þeir geti átt yfir höfði sér allt að 9 ára fangelsi, verði þeir dæmdir sekir.

„Viku eftir að Lehman-bræður hrundu haustið 2008 snerist athyglin að Íslandi. Margir spámenn áttu von á hröðu hruni bankakerfisins, en Kaupþing ætlaði sér annað. Óvænt birtist fjárfestir frá Katar og keypti 5% hlutafjár í bankanum. Bankastjórinn, Hreiðar Már Sigurðsson, útskýrði að fjárfestirinn Mohammed bin Khalifa al-Thani hefði fjárfest í Kaupþingi á þeim forsendum að hann tryði því að bankinn færi ekki í þrot. Það var því litið svo á að Hreiðar Már hefði með þessu dregið kanínu úr hatti og bjargað bankanum, sem flestum þótti undravert.“

Svo segir: „Samkvæmt saksóknara setti Khalifa al-Thani ekki eina krónu inn í Kaupþing þegar hann varð einn af aðaleigendum bankans, heldur hafi bankinn lánað fyrir kaupunum og eina veðið voru bréfin í bankanum sjálfum. Hreiðar Már er nú sakaður um að hafa staðið í markaðsmisnotkun og þrír aðrir eru sóttir til saka af sömu sakarefnum.“

Aðferð til að hreinsa út gamla tímann

Rætt er við Hallgrím Helgason rithöfund í greininni. Þar segir að Hallgrímur sjái réttarhöldin sem uppgjör milli gamla og nýja Íslands. „Ég held að Geir H. Haarde verði sýknaður, en ég held að þetta sé nauðsynleg og góð aðferð til að hreinsa út gamla tímann. Vonandi verður þetta hreinsandi fyrir Ísland,“ segir Hallgrímur.

Einnig er rætt við borgarstjórann Jón Gnarr sem er efins þegar kemur að réttarhöldunum. „Þetta er bara leikur, en ég vona að eitthvað gott komi út úr þessu,“ segir Jón Gnarr í samtali við Svenska Dagbladet.

Blaðið segir að saksóknari Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir, hafi átt erfiða viku fyrir landsdómi. Ekkert vitnanna hafi bent á eitthvað saknæmt í stjórnarfari Geirs. H. Haarde. Þvert á móti hafa vitnin gefið fulla mynd af mánuðunum fyrir hrun. Margir stjórnmálamenn og háttsettir embættismenn hafi sagst hafa séð ísjakann og gefið út viðvaranir, en samt hafi Íslandi siglt beint á hann.

„Okkar stjórnmálamenn voru bæði valdalausir og vonlausir. Maður fær skrítna tilfinningu þegar maður heyrir hvernig allir voru búnir að spá um framtíðina, án þess að nokkur finni til eigin ábyrgðar á því sem fór,“ segir Hallgrímur Helgason við Svenska Dagbladet.

Hallgrímur Helgason segir málið hreinsandi fyrir þjóðina.
Hallgrímur Helgason segir málið hreinsandi fyrir þjóðina. mbl.is/Brynjar Gauti
Saksóknari Alþingis, Sigríður J. Friðjónsdóttir og varasaksóknarinn Helgi Magnús Gunnarsson.
Saksóknari Alþingis, Sigríður J. Friðjónsdóttir og varasaksóknarinn Helgi Magnús Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert