„Þrátt fyrir hrakspár færumst við sífellt nær því stórhuga markmiði okkar að þjóðin eignist nýja stjórnarskrá,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun en hún nefndi endurkomu stjórnlagaráðs og áætlaða þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar sem dæmi um það hversu vel ríkisstjórnarsamstarfið hefði gengið.
Við upphaf ræðu sinnar lagði Jóhanna einnig áherslu á mikilvægi þess að ríkisstjórnarflokkarnir kláruðu aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið.
„Fáar þjóðir innan OECD státa af jafnmiklum hagvexti og Ísland um þessar mundir,“ sagði Jóhanna en hún sagði að nýlegar skýrslur af hálfu hagstofunnar staðfestu þann góða árangur sem náðst hefði í efnahagsmálum hérlendis.
Hún lagði jafnframt áherslu á að það sem helst ógnaði stöðugleika hér á landi væri íslenska krónan.