„Í mínum huga eru kostirnir augljósir,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í morgun og bætti við: „Óbreytt ástand kemur ekki til greina og valið stendur á milli þess að afsala sér fullveldi Íslands í peningamálum með einhliða upptöku annars gjaldmiðils eða gerast fullgildur aðili að ESB og samstarfi evruríkjanna sem fullvalda þjóð með aðkomu að ákvarðanatöku og stefnumótun í öllum samstarfsmálum.“
Jóhanna tók einnig fram að um þetta snerist það umboð sem Alþingi veitti ríkisstjórninni til þess að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Jóhanna fagnaði jafnframt umræðu um ýmiss konar kosti í gjaldeyrismálum og sagði sönnun þess að þörf væri á raunhæfum aðgerðum í þeim málum. „Jafnvel þannig að fullveldi Íslands í peningamálum verði fórnað með einhliða upptöku gjaldmiðils annarrar þjóðar. Umræða um einhliða upptöku kanadadollars, norskrar krónu, evru eða svissneskra franka ber þessa merki. Það ber að fagna umræðunni um alla þessa kosti en hún færir okkur heim sanninn um að raunhæfra aðgerða er þörf,“ sagði Jóhanna á flokksstjórnarfundinum í morgun.