Skatttekjur af eldsneytissölu vegna samgangna á landi verða 39 milljarðar króna í ár. Þar fara um 40%, eða 15,7 milljarðar króna, til vegagerðar.
Það kemur fram í áætlun Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtaka í umsögn um þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, sem fjallað er um í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.
Í umsögn samtakanna kemur fram ótti við að stórkostlegt tjón verði á vegakerfi landsins ef ekki verður veitt meira fjármagn til fjárfestinga og viðhalds en gert er ráð fyrir í þeim tillögum sem Alþingi hefur til umfjöllunar um þessar mundir.