Að mati Lilju Mósesdóttur, alþingismanns og formanns Samstöðu, eru hugmyndir um Kanadadollara sem gjaldmiðil hér á landi vart raunhæfar. Hún segir sænsku krónuna vænlegri kost og segir hugmyndir um nýja íslenska krónu miða að því að auka trúverðugleika íslenska gjaldmiðilsins.
„Við ættum þá frekar að skoða kostina við að taka upp sænsku krónuna. Þá skoðun mína byggi ég á skýrslu OECD, þar sem kemur fram að hagsveiflur séu líkastar hér á landi og í Svíþjóð,“ segir Lilja í viðtali í Sunnudagsmogganum í dag.
Hún segir Samstöðu tilbúna til í að skoða alla valkosti, líka krónuna. „Ég hef talað fyrir upptöku nýrrar krónu,“ segir Lilja.
Markmiðið með henni segir hún ekki síst vera að byggja upp trúverðugleika. „Erlendar fjármálastofnanir og fjárfestar tengja íslensku krónuna við áhættu og bankahrun. Allir sem hafa lært eitthvað í markaðsfræði vita að það tekur langan tíma að ávinna sér trúverðugleika sem hefur tapast. Á meðan þurfum við gjaldeyrishöft með tilheyrandi kostnaði fyrir fyrirtæki og heimili.
Ég get heldur ekki séð hvernig við eigum að losna við aflandskrónurnar út úr hagkerfinu, sem eru nú um 460 milljarðar. Þar á ofan koma greiðslur til erlendra kröfuhafa úr þrotabúum bankanna sem skipta þarf yfir í erlenda gjaldmiðla. Hvernig á allt þetta fjármagn að fara út úr hagkerfinu án þess að gengi krónunnar hrapi og gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem nú er um 1.000 milljarðar, þurrkist út og eftir standi skuldir við AGS og Norðurlöndin?“ spyr Lilja.
Hún segir einu leiðina til að koma í veg fyrir það vera að leiðrétta virði aflandskrónanna um leið og tekinn verði upp annar gjaldmiðill. „Leiðréttingin fælist í lægra skiptigengi aflandskrónanna en annarra eigna. Við höfum endurskoðað allt okkar regluverk eftir hrunið og staðið við skuldbindingar okkar eftir bestu getu. Eigum við þá ekki rétt á að fá aftur tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum á jafnréttisgrundvelli?“
Getum við það ekki með núverandi gjaldmiðli? „Það yrði löng þrautaganga með höft til að verja gengi krónunnar og mikla skuldsetningu vegna útstreymis froðueigna.“
Viðtalið má lesa í heild í Sunnudagsmogganum í dag.