Bragi Þorfinnsson hélt áfram sigurgöngu sinni á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu ídag þegar hann vann bandarískan FIDE-meistara og er aðeins hálfum vinningi á eftir efstu mönnum, Ivan Sokolov og Ivan Cheparinov, frá Búlgaríu, sem eru efstir með fullt hús.
Sokolov sigraði tékkneska ofurstórmeistarann David Navara sannfærandi með svörtu. Cheparinov vann bandaríska stórmeistarann Robert Hess.
Sjöundi stigahæsti skákmaður heims, Ítalinn ungi Fabiano Caruana, og breski stórmeistarinn Gawain Jones eru í 3.-5. sæti ásamt Braga.
Stefán Kristjánsson, Hannes Hlífar Stefánsson, Henrik Danielsen og Hjörvar Steinn Grétarsson eru í skiptu sjötta sæti með 4 vinninga.
Sem fyrr voru allmörg eftirtektarverð úrslit. Einar Hjalti Jensson gerði enn eitt gott jafnteflið, að þessu sinni við bandaríska stórmeistarann Maurice Ashley. Dagur Kjartansson heldur áfram að gera góða hluti og vann mun stigahærri andstæðing. Sverrir Örn Björnsson, Jón Trausti Harðarson og Birkir Karl Sigurðsson gerðu allir jafntefli við mun stigahærri andstæðinga. Svíinn Johan Henriksson vann bandaríska stórmeistarann Yuri Shulmann, sem er heillum horfinn.
Tvær umferðir fara fram á morgun, sunnudag, og fara þær fram kl. 9.30 og 16.30. Stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason verða með skákskýringar og hefjast þær kl. 12 og 19.
Í 6. umferð mætast m.a.: