Úrsögnin var áfall

Lilja Mósesdóttir þingmaður og formaður Samstöðu
Lilja Mósesdóttir þingmaður og formaður Samstöðu Sigurgeir Sigurðsson

Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, segir að það hafi verið öllum sem koma að flokknum mikið áfall þegar annar varaformaður flokksins, Sigurður Þ. Ragnarsson, sagði sig úr honum. Hún hafnar því að um klofning sé að ræða. Lilja segist um tíma hafa verið nálægt því að hætta á þingi og segir stofnun Samstöðu hafa verið nauðsynlegt mótvægi við fjórflokkinn.

Þetta segir Lilja í viðtali í Sunnudagsmogganum í dag.

„Frá því ég sagði mig úr VG í mars á síðasta ári og þangað til í lok október íhugaði ég að hætta á þingi og var reyndar mjög nálægt því. En þetta sumar höfðu margir samband við mig og reyndu að sannfæra mig um að ég hefði mikinn stuðning úti í samfélaginu. Að ég væri að bregðast þeim stuðningi með því að hætta áður en mér hefði tekist að ljúka verkefni mínu, þ.e. að tryggja hagsmuni almennings í endurmótun samfélagsins eftir hrun. Ég var sammála þessu, en fannst tilgangslítið að ganga aftur inn í valdakerfi fjórflokksins og reyna að ná fram breytingum þaðan. Þess vegna ákvað ég að stofna nýjan flokk sem valkost við fjórflokkinn, þó ég vissi að það myndi taka allan minn tíma og orku næstu árin. Þegar við vorum að undirbúa stofnunina lagði ég áherslu á að fá til liðs við mig einstaklinga úr ólíkum áttum til að móta grundvallarstefnu Samstöðu og mynda bráðabrigðastjórn flokksins fram að næsta landsfundi,“ segir Lilja.

En þið hafið ekki unnið sérlega þétt saman. Annar af tveimur varaformönnum flokksins, Sigurður Þ. Ragnarsson, sagði sig úr honum mánuði eftir að tilkynnt var um stofnun hans.
„Það var mikið áfall fyrir okkur öll. Ég kynntist Sigurði aðeins þegar hann var á Útvarpi Sögu. Þá talaði hann um að ég yrði endilega að láta sig vita þegar ég stofnaði flokkinn. Sem ég og gerði. En þar sem við vorum að vinna á bak við tjöldin fyrstu mánuðina, þá varð það að samkomulagi að við segðum ekki frá því út fyrir hópinn hverjir væru í honum. Þannig að ég hafði ekki þetta tæki sem maður notar alltaf; að kanna bakgrunn fólks áður en því er falið ábyrgðarstöður. Það hefði hugsanlega komið í veg fyrir þessa uppákomu.“

Haft var eftir varaformanninum fyrrverandi að ein af ástæðunum fyrir því að hann sagði af sér væri sú að öðrum í hópnum hafi fundist hann fá helst til mikla
fjölmiðlaathygli. Er það ekki nokkuð fyrirsjáanlegt, þegar landsþekktur maður á í hlut?

„Við bjuggumst auðvitað við því að hann fengi meiri athygli en margir aðrir og þess vegna töluðum við um að leggja áherslu á að leyfa öllum að tjá sig við fjölmiðla. Við vorum með tvo varaformenn, Sigurð og Agnesi Arnardóttur, sem var algjörlega hunsuð þegar við tilkynntum um stofnun flokksins,“ segir Lilja.

Sigurður kaus að túlka tilmæli um að við þyrftum að dreifa athyglinni þannig að hann mætti ekki fara í fjölmiðla. Við margleiðréttum hann, en hann kaus að láta óánægju sína í ljós í viðtali í DV. Það var ekki um neinn klofning að ræða í flokknum þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi farið hamförum í þessu máli.“

En hvað með þennan umtalaða tölvupóst?. Í tölvupóstinum var ekkert sem ekki var rétt og því fannst mér eðlilegt að senda hann á alla viðtakendur.“

En átti Sigurður að fá hann? „Miðað við viðbrögð hans, þá voru það mistök að senda honum tölvupóstinn á þessum tímapunkti.“

Viðtalið er birt í heild sinni í Sunnudagsmogganum í dag.

Frá fundi Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, þann 7. febrúar …
Frá fundi Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, þann 7. febrúar í Iðnó. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert