Stormurinn um norðan- og austanvert landið gengur smám saman niður í dag, einkum þegar líður á daginn. Él verða norðvestantil og á hæstu fjallvegum, skafrenningur að auki s.s. á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Á Hellisheiði mun einnig ganga á með éljum í dag, en vindur hefur þegar gengið þar mikið niður, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Óveður er á Holtavörðuheiði, Öxnadalsheiði og Mývatnsöræfum. Þá er einnig óveður í Víkurskarði. Fjallvegir á Vestfjörðum eru ófærir fyrir utan Gemlufallsheiði, þar er hálka og skafrenningur.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd fara vindhviður á mörgum veðurstöðvum nú yfir 20 metra á sekúndu, en myndin er tekin úr vegsjá Vegagerðarinnar. Á þeim stöðum þar sem vindhraði mælist yfir 20 m/s er veðurstöðvar merktar í rauðum lit.
Hálkublettir eru á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Annars er að mestu autt á Suðurlandi en þó hálkublettir á örfáum leiðum.
Hálka og skafrenningur er á Bröttubrekku og hálka á Holtavörðuheiði þar sem einnig er óveður. Hálkublettir eru svo víðast hvar á Snæfellsnesi en þó er hálka á Vatnaleið.
Á Vestfjörðum er hálka, snjór eða þæfingur. Á Gemlufallsheiði er hálka og skafrenningur, ófært er svo á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum. Hálkublettir og éljagangur er á Ströndum.
Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir nokkuð víða. Norðaustanlands er hálka og óveður á Öxnadalsheiði og Mývatnsöræfum.
Óveður er einnig á Víkurskarði en þar er snjór. Á öðrum leiðum eru víða hálkublettir eða hálka.
Austanlands er hálka á Oddsskarði en hálkublettir og óveður á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði. Greiðfært er víða á láglendi.